Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í Reykjavík, gagnrýnir að fella hafi þurft niður fundi í ráðum Reykjavíkurborgar vegna vetrarfría í grunnskólum. Skólafrí voru á mánudag og þriðjudag, en fyrirhugaðir fundir í umhverfis- og heilbrigðisráði, skipulags- og samgönguráði og borgarráði voru skipulagðir í dag, miðvikudag og á morgun, fimmtudag. Morgunblaðið greinir frá.
Vetrarfríin eru auglýst af Reykjavíkurborg sem samverustund fjölskyldunnar og segir Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags- og samgönguráðs, að það sé markmiðið einnig í borgarstjórn:
„Við erum að gera borgarstjórn og Reykjavíkurborg að fjölskylduvænum vinnustað. Það er vetrarfrí í skólum borgarinnar þessa vikuna,“
segir Sigurborg við Morgunblaðið og tekur fram að frídagarnir, mánudagur og þriðjudagur, séu jafnan notaðir til undirbúnings þeirra funda sem haldnir séu á miðvikudögum og fimmtudögum. Nefnir hún að það yrði mjög erfitt að halda óbreyttu plani varðandi fyrirhugaða fundi, það gæfist engin tími fyrir undirbúningsfundi og teldist ekki góð vinnubrögð.
Haft er eftir Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, formanns borgarráðs, að um brot á vinnureglum hefði verið að ræða, ef fundirnir hefðu ekki verið felldir niður:
„Öll fundahöld í pólitíkinni eru undirbúin af starfsmönnum. Fundur borgarráðs á fimmtudegi er undirbúinn á mánudegi og á hádegi eru lokaskil á gögnum. Það hefði brotið allar vinnureglur um aðgang að gögnum og tímafyrirvara,“
svaraði Þórdís aðspurð, hvort ekki hefði verið hægt að undirbúa fimmtudagsfund borgarráðs í dag, miðvikudag.
Vigdís Hauksdóttir telur þetta vera undarleg vinnubrögð, það sé nú ekki mikið mál að undirbúa þessa fundi:
„Ég tel það ekki vera flókið verk að raða saman dagskrá og boða til fundar. Ég hefði gjarnan viljað hafa fund í borgarráði vegna allra þessara mála sem nú eru í gangi. En þetta er auðvitað eitthvað sem meirihlutinn í borginni ákveður og við sem erum í minnihlutanum fáum engu ráðið um það. Fundafall hjá borginni í heila viku – ég set vissulega spurningarmerki við það.“