fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Spyr hvort Efling noti dýraníðstaktík LBJ: „Látum helvítið neita“

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 27. febrúar 2019 14:00

Samsett mynd DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Staksteinahöfundur Morgunblaðsins lætur að því liggja að Efling – Stéttarfélag notist við vafasamar aðferðir í kjarabaráttu sinni þessa dagana og ýjar að því að Efling noti fölsuð gögn til þess að koma slæmu orðspori á andstæðinga sína, í þessu tilfelli hóteleigendum í Reykjavík, samanber „skammarlista“ sem hékk uppi í starfsmannaaðstöðu eins af stóru hótelunum.

Rifjuð er upp sagan af fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, Lyndon B. Johnson, sem í æsispennandi kosningabaráttu fyrir öldungadeildarþingsæti árið 1948 er sagður hafa sakað mótframbjóðanda sinn um að hafa lagst með svínum, en sá var fyrrverandi svínabóndi. Johnson var bent á að sagan væri ekki sönn, en Johnson skeytti engu um það, heldur svaraði um hæl: „Auðvitað ekki, en látum helvítið neita því:“

„Þessi saga kemur upp í hugann þegar fylgst er með kjarabaráttu Eflingar“, segir Staksteinahöfundur og heldur áfram: „Fyrst var hóteleigandi sakaður um að hafa vísað útsendurum Eflingar frá þegar þeir mættu óboðaðir til þess að gefa starfsmönnum hótelsins kost á að kjósa um verkfallsboðun. Lítið var gefið fyrir það þegar stjórnandinn sagði að hann hefði einfaldlega sagt að ekki stæði vel á en þeim væri velkomið að koma tveimur tímum síðar. Í gær var því síðan slegið upp að á öðru hóteli hér í bær héngi „skammarlisti“ uppi á vegg þar sem veikindadagar starfsmanna væru skráðir og sýnilegir öðrum starfsmönnum. Þessar upplýsingar hefði Efling haft undir höndum frá því í upphafi mánaðar. Sagði formaður Eflingar þetta sýna að atvinnurekendur litu á starfsmenn sem „einnota drasl“. Frá hótelinu bárust hins vegar þau svör að engir slíkir listar héngju uppi á vegg. Auk þess hefði Efling ekki leitað til hótelsins til að spyrjast fyrir um málið og hefði þó haft upplýsingarnar frá því í upphafi mánaðar.“

Að lokum spyr höfundur Staksteina:

„Er ástæðan sú að beita á sömu aðferð og bandaríski stjórnmálamaðurinn forðum og láta andstæðingana neita?“

Rétt er að taka fram að Efling birti aðra mynd sem sýndi vel að myndin af listanum var tekin í almennu rými fyrir starfsfólk.

Sjá einnig: Efling sakar mannauðsstjóra Íslandshótela um rangfærslur

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt