fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Eyjan

Afríka er nýjasta víglínan í valdauppgjöri stórveldanna

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 24. febrúar 2019 19:00

Lánveitingar Emmerson Mnangagwa, forseti Zimbabwe og Pútín.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rússland og Kína standa í ströngu þessa dagana við að styrkja pólitíska, efnahagslega og hernaðarlega stöðu sína í Afríku. Bandaríkin eru ekki sátt við þetta og saka Kínverja um að halda afrískum þjóðum sem gíslum og Rússa um að selja þeim vopn og orku í skiptum fyrir atkvæði þeirra á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Þegar Simbabvemenn vöknuðu nýlega upp við að bensínverð í landinu var orðið það hæsta í heimi brutust mikil mótmæli út. Ríkisstjórnin mætti þeim af mikilli hörku. Á sama tíma og lögreglan skaut á mótmælendur sem reyndu að skýla sér bak við brennandi dekk voru þeir sem báru ábyrgð á stöðunni hvergi nærri. Emmerson Mnangagwa forseti var í Kreml til að reyna að kría út lán til handa illa stöddu landi sínu. Þar fundaði hann með Vladimír Pútín Rússlandsforseta sem hefur átt annríkt undanfarið ár við að byggja upp ný sambönd við afríska leiðtoga. Þessi vinaleit hans hófst í kjölfar innlimunar Rússa á Krímskaga 2014 en í kjölfar hennar fraus sambandið við Vesturlönd nánast og hefur ekki þiðnað síðan. Af þessum sökum töldu Rússar sig þurfa að leita nýrra bandamanna og það hefur nú þegar skilað sér í mörgum samningum um hernaðarlega samvinnu og hefur styrkt stöðu og áhrif Rússa í Afríku mikið.

Þetta hefur komið mörgum vestrænum sérfræðingum og stjórnmálamönnum á óvart. Rússar hafa ekki sama efnahagslega bolmagn og Kínverjar en geta hins vegar boðið ódýr vopn, hernaðarráðgjöf og aðgengi að ríkisreknum fyrirtækjum sem hafa mikla reynslu af vinnslu náttúruauðlinda. Þetta hefur verið vinsælt og ekki síst meðal einræðisherra í álfunni. Augljósast er þetta í Súdan og Mið-Afríkulýðveldinu. Í nýlegum mótmælum og óróleika í Súdan, þar sem að minnsta kosti 40 manns létust, segja margir fjölmiðlar og leiðtogar stjórnarandstöðunnar að þeir hafi séð rússneska málaliða á götum Khartoum. Þeir hafa aðstoðað og þjálfað leyniþjónustu landsins enda er samband Rússa við valdhafa í Súdan náið.

Rússneskir blaðamenn myrtir

Það voru morð á þremur rússneskum blaðamönnum í Mið-Afríkulýðveldinu í sumar sem opnuðu augu heimsins af alvöru upp fyrir sókn Rússa til áhrifa í Afríku. Blaðamennirnir höfðu farið til Mið-Afríkulýðveldisins til að rannsaka umsvif rússnesks málaliðafyrirtækis. En þeir komust ekki langt með rannsókn sína því þeir lentu í fyrirsát og voru skotnir til bana. Yfirvöld komust að þeirri niðurstöðu að um ránstilraun hefði verið að ræða. En áður en þeir voru myrtir hafði lögreglumaður, með tengsl við Rússa, njósnað um þá, sagði CNN nýlega í heimildamynd.

Það leikur enginn vafi á að Rússar hafa aukið hernaðarlega viðveru sína í Mið-Afríkulýðveldinu. Þeir sjá til dæmis um þjálfun öryggissveita landsins. Eftir því sem fram hefur komið í fjölmiðlum er hugsanlegt að næsta skref þeirra verði að opna herstöð í landinu. Þeir hafa einnig uppi hugmyndir um að opna birgðastöð í Erítreu, ekki fjarri herstöðvum Kína og Bandaríkjanna í Djíbútí. En það veldur mörgum einna mestum áhyggjum núna að Rússar virðast hafa tryggt sér bein áhrif á öryggisstefnu Mið-Afríkulýðveldisins. Þeir hafa selt stjórnvöldum vopn og skotfæri og staðið fyrir þjálfun öryggissveita. Í Súdan hafa stjórnvöld fengið Rússa til að gegna starfi þjóðaröryggisráðgjafa og lífverðir forsetans eru að sögn Rússar. Rússar hafa einnig seilst til áhrifa í Austur-Kongó.

Því hefur verið varpað fram að Rússar séu að reyna að verða einhvers konar hernaðarlegt öryggisnet fyrir Afríkuþjóðir. Þeir lokki leiðtoga frá stuðningi við Vesturlönd með ódýrum vopnum og tálsýn um pólitíska tryggð.

Kínverjar beina sjónum sínum aðallega að náttúruauðlindum álfunnar og reyna að ná stjórn á þeim. Austur-Kongó er stærsta framleiðsluland kóbalts, sem er notað við framleiðslu raftækja, og vilja Kínverjar gjarnan ná stjórn á þessari auðlind og losa sig við vestræn fyrirtæki.

 

Sambía
Auðugar koparnámur.

Vita vel af þessu

John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta, gagnrýndi umsvif Rússa og Kínverja í ræðu sem hann hélt í desember. Hann sagði jafnframt að Bandaríkin muni hrinda nýrri áætlun af stað til að vinna gegn því sem Rússar og Kínverjar eru að gera í álfunni. Bolton sagði að ágengni Rússa og Kínverja í Afríku skekki hagvöxt í álfunni og ógni efnahagslegu sjálfstæði ríkja hennar. Hann sakaði Rússa um að selja vopn og orku í skiptum fyrir atkvæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Með þessum atkvæðum væri stuðlað að því að einræðisstjórnir sitji að völdum, grafið sé undan friði og öryggi og unnið gegn hagsmunum Afríkubúa að mati Bolton. Hann vandaði Kínverjum heldur ekki kveðjurnar og sagði þá nota mútur, flókna og ógagnsæja samninga og áætlun um að nota skuldir til að halda Afríkuríkjum sem gíslum til að uppfylla drauma sína og kröfur. Hann nefndi Djíbútí og Sambíu sérstaklega til sögunnar.

Í Sambíu er mikið af kopar og hefur landið fengið um 10 milljarða dollara lán hjá Kínverjum til að byggja skóla, flugvelli og aðra innviði. Ef landið getur ekki staðið við afborganir af þessum lánum er þess vænst að Kínverjar taki yfir stjórn orkufyrirtækis landsins.

Í Djíbútí er svipað uppi á teningnum. Stjórnvöld hafa fengið há lán hjá Kínverjum og skulda þeim mikið. Árið 2017 opnuðu Kínverjar herstöð í landinu en þetta er fyrsta herstöð þeirra í Afríku og ekki nóg með það því hún er mjög nærri bandarískri herstöð. En auk þess að leyfa Kínverjum að opna herstöð gætu stjórnvöld í Djíbútí þurft að láta Kínverjum eftir yfirráð yfir gámahöfninni í Doraleh við Rauðahaf, en ef svo fer þá verða Kínverjar allvaldamiklir á því svæði.

Svo virðist sem Kenía hafi gengið í sömu gildru. Landið fékk lán hjá Kínverjum til að leggja nýja járnbrautarlínu, en á nú í erfiðleikum með að greiða af láninu og þarf jafnvel að láta Kínverjum eftir yfirráð yfir höfninni í Mombasa.

Bandaríkjamenn geta að vissu leyti litið í eigin barm varðandi þróun mála í Afríku því undanfarinn áratug, á valdatíma Baracks Obama, horfðu Bandaríkin aðallega á Afríku með öryggismál í huga en höfðu engan hug á fjárfestingum þar. Þetta opnaði leið Kínverja inn í álfuna og það hafa þeir nýtt sér út í ystu æsar og Rússar hafa einnig séð sér leik á borði til að koma ár sinni vel fyrir borð í álfunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kristrún Frostadóttir: Lítum á þingflokka ríkisstjórnarinnar sem einn stóran þingflokk – nýtt verklag við landsstjórnina

Kristrún Frostadóttir: Lítum á þingflokka ríkisstjórnarinnar sem einn stóran þingflokk – nýtt verklag við landsstjórnina
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Grænlandsraunir

Óttar Guðmundsson skrifar: Grænlandsraunir
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Andri Snær kemur Carbfix til varnar – „Ég hef þessa skoðun, get skipt um skoðun“

Andri Snær kemur Carbfix til varnar – „Ég hef þessa skoðun, get skipt um skoðun“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Tímamóta-Dagur þakkar fyrir sig – „Og angurværi gaurinn – ég – til hægri, þakkar fyrir sig!“

Tímamóta-Dagur þakkar fyrir sig – „Og angurværi gaurinn – ég – til hægri, þakkar fyrir sig!“
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Fyrrum þingmaður segir okkur ekki ráða við þetta einfalda verkefni

Fyrrum þingmaður segir okkur ekki ráða við þetta einfalda verkefni
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð