fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Eyjan

Sakar Morgunblaðið um hómófóbíu: Ólíklegt að eyðublaðabreyting leiði til Orwellísks samfélags

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 18. febrúar 2019 12:34

Samsett mynd DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Novators, fyrirtæki Björgólfs Thors Björgólfssonar, sakar Staksteina Morgunblaðsins um hómófóbíu í dag, er þeir fjalla um aðgerðir Frakka til að fella út orðin „móðir“ og „faðir“ í skólalögum og nota þess í stað „foreldri 1,“ og „foreldri 2.“ Með þessu á að tryggja jafnrétti samkynhneigðra, sem orðin „móðir“ og „faðir“ geri ekki.

Í Staksteinum er vitnað í bloggfærslu Gústafs Adolfs Skúlasonar sem segir þessi lög vera líkt og úr vísindaskáldsögu og „kippi stoðunum undir kjarnafjölskyldunni-sjálfum grundvelli samfélagsins.“ Einnig að börn verði „heilaþveginn“ með þessum nýju hugtökum.

Tekur Staksteinahöfundur undir orð Gústafs er hann amast við því að tungumálinu sé breytt í viðleitninni til þess að búa vel að ólíkum fjölskylduformum:

„Jafnrétti er sjálfsagt og þjóðfélagið þarf að búa vel að ólíkum fjölskylduformum. En þegar farið er að sýna viðleitni í þá átt að breyta tungumálinu þá rifjast upp nýorðaframleiðslan sem kynnt var í bókinni 1984. Sú upprifjun vekur ekki notalegar tilfinningar.“

Augljós hómófóbía

Ragnhildur, sem sjálf er samkynhneigð og er fyrrverandi blaðamaður á Morgunblaðinu, segir um hómófóbíu að ræða í Staksteinskrifunum:

„Staksteinar Moggans reyna að fela augljósa hómófóbíu sína á bakvið uppdiktaðar áhyggjur af tungumálinu. Nú eigi að breyta tungumálinu með því að fella orðin „faðir“ og „móðir“ á brott, allt til að mylja undir samkynhneigða. Þannig á að „kippa stoðunum undan kjarnafjölskyldunni – sjálfum grundvelli samfélagsins“. Og heilaþvo lítil börn, eins og samkynhneigðir leitast auðvitað alltaf við að gera hvenær sem þeir fá á því færi. Ástæða þessa upphlaups Staksteina er að Frakkar munu hafa samþykkt ný skólalög, þar sem hugtökin „Foreldri 1“ og „Foreldri 2“ koma í stað „faðir“ og „móðir“ í eyðublöðum skóla, t.d. þegar foreldri þurfa að gefa samþykki sitt til að börn fari í skólaferðalög, fái aðgang að mötuneyti o.s.frv.“

Ragnhildur bendir á hversu sérstakt kerfið sé hér á landi, þar sem aðeins sé gert ráð fyrir að foreldrasamsetningin geti verið af einni tegund.

„Franskir skólar hafa hingað til greinilega verið á sömu nótunum og þeir íslensku, þar sem foreldrar fá oftast nær eyðublöð í hendur þar sem gert er ráð fyrir að börnin séu öll í umsjá föður og móður. Svo er auðvitað alls ekki. Mörg börn búa hjá einstæðu foreldri. Sum hjá öðrum ættingjum. Og svo eru þau sem alast upp hjá samkynhneigðum foreldrum, þessum sem sífellt reyna að eyðileggja hefðir aldanna sér í vil og skirrast ekki við að eyðileggja tungumálið. Börn þessara foreldra, t.d. dætur mínar og konu minnar, verða snemma mjög sjóuð í að krota yfir „faðir“ og setja þar nafn hinnar móðurinnar. En þetta fær alltaf dálítið á þau, að vera í hvert einasta skipti eitthvert frávik. Auðvitað nota þessi börn áfram orðin „faðir“ og „móðir“, en þau eiga ekki frá unga aldri að þurfa að krota í eyðublöð, sem gera ekki ráð fyrir tilveru þeirra og foreldra þeirra.“

Ólíklegar afleiðingar

Ragnhildur spyr að lokum hvort fólk trúi því virkilega að örlítil breyting á eyðublöðum í skólum hér á landi muni breyta Íslandi í Orwellískt samfélag:

„Þetta er nú allur glæpurinn hjá Frökkum; þeir ætla að gera eyðublöð hlutlausari. Þeir ætla ekki að fella niður orðin „faðir“ og „móðir“. En hjá Staksteinum og hjá skoðanabræðrum þeirra forpokuðu steinvala jafngildir breytingin því að „kippa stoðunum undan kjarnafjölskyldunni – sjálfum grundvelli samfélagsins“. Einu sinni varaði þáverandi biskup Íslands við því, að ef samkynhneigðir fengju að ganga í hjónaband jafngilti það því að hjónabandinu sem stofnun væri varpað á öskuhauga sögunnar. „Hin aldagamla stofnun sem hjónabandið er er þá afnumin,“ sagði biskup árið 2006. Hefur einhver orðið var við að hjónabandið hafi verið afnumið? Trúir fólk því að börn frá 3 ára aldri verði hér eftir heilaþvegin með nýju hugtökunum „Foreldri 1“ og „Foreldri 2“, af því að þau verða notuð á eyðublöðum? Trúir fólk því, að með slíkum breytingum verði stefnt að 1984-samfélagi Orwells?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Inga lét sverfa til stáls – „Ég get til dæmis ekki lesið í gegnum höfuðið á þér“

Inga lét sverfa til stáls – „Ég get til dæmis ekki lesið í gegnum höfuðið á þér“