Landsréttur dæmdi í gær þá Hreiðar Má Sigurðsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþingsbanka í Lúxemborg, seka fyrir fjárdrátt og hlutdeild í fjárdrætti í Marple-málinu. En þar sem þeir hafa báðir náð sex ára refsihámarki vegna auðgunarbrota með fyrri dómum í öðrum málum tengdu hruninu, fá þeir enga refsingu fyrir glæpinn sem þeir frömdu. Kjarninn greinir frá.
Þeir Hreiðar Már og Magnús voru sakfelldir fyrir einn ákærulið af þremur, fyrir millifærslu þriggja milljarða króna frá Kaupþingi hf. til Kaupþings LÚX, hvaðan fjárhæðin fór að lokum á reikning í eigu Marple-félagsins. Eigandi Marple, Skúli Þorvaldsson og fyrrverandi fjármálastjóri Kaupþings, Guðný Arna Sveinsdóttir, voru sýknuð af ákærum um fjárdrátt og umboðssvik. Skúli hafði áður hlotið sex mánaða dóm í héraðsdómi Reykjavíkur.
Skaðabótakrafa Kaupþings á hendur Hreiðari Má og Magnúsi vegna brota þeirra var einnig viðurkennd og þurfa þeir að greiða þriðjung lögfræðikostnaðar verjenda sinna, en afgangurinn greiðist af almenningi. (Ríkissjóði).