fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Segir hagnaðardrifin leigufélög nauðsynleg og spyr hvort „ofsinn“ á netinu leiði til hærri leigu

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 13. febrúar 2019 13:29

Ásgeir Jónsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ásgeir Jónsson, hagfræðingur, ritar um leigufélagið Heimavelli í pistli á Facebook. Dótturfélag þess er til sölu og reksturinn sagður ganga illa, en félagið hefur verið endurfjármagnað um átta milljarða með skuldabréfaútboðum síðustu misseri og rætt er um að draga félagið úr kauphöllinni, eftir aðeins átta mánaða veru.

Ásgeir veltir upp þeim möguleika hvort að þjóðfélagsumræðan hafi haft áhrif á reksturinn, jafnvel leitt til hækkunar á leiguverði, en hávær gagnrýni hefur komið úr horni verkalýðsforystunnar og sósíalista, sem hafa beitt sér fyrir því að stofna óhagnaðardrifin leigufélög:

„Sá sem hér ritar beygir ekki skafl þó netverjar hafi um hann orð sem mömmu hans myndi sárna. Það er hins vegar áleitin spurning hvort þjóðfélagsumræðan hafi fælt fjárfesta frá Heimavöllum – einkum þó lífeyrissjóðina. Ef það er satt – er ofsinn á samfélagsmiðlum að leiða til hærri leigu – þar framboð á leiguhúsnæði minnkar við brotthvarf Heimavalla og ávöxtunarkrafa félagsins hlýtur að vera viðmið fyrir alla þá hyggjast leigja út húsnæði.“

Hver er glæpur Heimavalla ?

Ásgeir spyr hvernig leigumarkað fólk vilji hafa á Íslandi og segir hagnaðardrifin leigufélög eiga fullan rétt á sér:

„Í febrúar 2018 hélt ég erindi á morgunverðarfundi leigufélagsins Heimavalla. Það var líkt og ég hafði talað hjá glæpafélagi – tugir rituðu ummæli um mig á samfélagsmiðlum sem voru ekki við hæfi móður minnar. „Hann lýgur með lokaðan munninn“ varð einum ágætum manni að orði. Nú sléttu ári síðar liggur í loftinu að Heimavellir verði afskráðir – og íbúðir félagsins verði mögulega teknar úr leigu og seldar. Ég spyr – hver var glæpur Heimavalla?

Þeirri spurningu má fyrst velta upp: Hvernig leigumarkað viljum við hafa á Íslandi? Eða, öllu heldur, viljum við hafa leigumarkað? Það er eðlileg krafa að öllum sé tryggt þak yfir höfuðið. Og til staðar sé öflugt félagslegt leigukerfi. Það er verkefni sveitarfélaganna. Þá er þarft að hafa öflug óhagnaðardrifin félög líkt og Félagsstofnun stúdenta eða Búseta. En af hverju mega hagnaðardrifin leigufélög ekki starfa sem búsetuvalkostur fyrir fullfrískt fólk í góðri vinnu? Áður slík félög komu til sögunnar hafði “venjulegt” fólk nær enga möguleika á langtíma leigu.“

Vextirnir vandamálið

Ásgeir nefnir að hávaxtastefnan hér á landi sé rót vandans:

„Annars hét erindið mitt „Hvað er rétt leiga á Íslandi?“. Þar sagði orðrétt: „Vextir og leiga eru spegilmyndir hvors annars. Hvort tveggja er mælikvarði á fórnarkostnað fjármagns. Lönd með háa vexti líkt og Ísland eru líka með háa leigu. Háir vextir eru einmitt vandamál Heimavalla.Það er ekki aðeins að íslenskir vextir séu mun hærri en þekkist ytra: Erlendis eru íbúðaleigufélög með lægri fjármagnskostnað en félög sem leigja atvinnuhúsnæði. Þessu er öfugt farið hér. Heimavellir hafa greitt um 4,4% raunvexti að meðaltali. Til samanburðar hafa leigufélög með atvinnuhúsnæði náð raunvöxtum á bilinu 2,7-3,0% en einstaklingar fjármagna íbúðakaup í námunda við 2,5-2,7%.

Markmið Heimvalla var að ná vöxtum niður í 3,5-3,7%. Það hefur gengið heldur seint – þó alls hafi félagið endurfjármagnað um 8 milljarða um skuldabréfaútboðum á síðustu mánuðum.

Staðan er því sú að hreinar leigutekjur Heimavalla duga ekki fyrir fjármagnskostnaði – félagið getur því seint verið ásakað um okur. Aukinheldur, er skráð markaðsvirði mun lægra en bókfært eigið fé – á blaði felst ábati í því að leysa félagið upp og selja eignir. Enda hefur tillaga komið fram um afskráningu félagsins fyrir ársfund félagsins þann 15. mars næstkomandi.“

Græðgin er góð

Að lokum segir Ásgeir að hagnaðardrifin leigufélög séu nauðsynleg hér á landi og óneitanlega kemur upp í hugann hin ódauðlega setning Gordon Gekko í myndinni Wall Street frá árinu 1987, „greed is good“ eða græðgi er góð:

„Brotthvarf Heimavalla úr Kauphöllinni væri að mínu mati sorgleg tíðindi. Ísland þarf á sterkum hagnaðardrifnum leigufélögum að halda. Já – leigan er há en það stafar af því að Ísland er hávaxtaland og framboð á nýjum íbúðum hefur verið takmarkað. Ýmsar leiðir eru til þess að breyta því – aðrar en glæpagera þá sem leigja út húsnæði.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Líf sendir Einari væna pillu – „Hér má sjá algera uppgjöf og metnaðarleysi borgarstjóra“

Líf sendir Einari væna pillu – „Hér má sjá algera uppgjöf og metnaðarleysi borgarstjóra“
Eyjan
Fyrir 1 viku

„Ég held að landsmenn verði miður sín að hafa ekki Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn“

„Ég held að landsmenn verði miður sín að hafa ekki Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn“