Margir listamenn hafa haldið sýningar á Mokka, en aðeins eitt listaverk hefur orðið þar eftir. Það er verk sem var á sýningu Eyborgar Guðmundsdóttur á kaffihúsinu 1966, en hefur hangið í glugganum á Mokka alla tíð síðan þá.
Ég var áður fastagestur á Mokka og hélt löngum að verkið væri eftir Hörð Ágústsson, en nei, það er misskilningur – það er eftir Eyborgu.
Sjálfur man ég eftir Eyborgu úr bernsku. Hún var vinkona móðursystur minnar, sem bjó í sama húsi og fjölskylda mín, og kom þangað stundum í heimsókn. Þetta var kona sem maður tók eftir – ég man að mér þótti mikið til þess koma að hún væri myndlistarmaður og mér þóttu verkin hennar flott þótt ég hefði ekki djúpan skilning á geometrískri list eða flatarmálslist.
Og mér þótti líka nafn hennar skrítið. Þetta var á tímanum þegar flestir hétu Jón eða Gunna, samkvæmt Íslendingabók hafa aðeins fimm konur borið nafnið Eyborg.
Eyborg dó langt fyrir aldur fram.
En nú er tími til að enduruppgötva list hennar. Listýnirinn Jón B.K. Ransu hefur kallað hana vanmetnasta listamann Íslands. En nú hefur opnað á Kjarvalsstöðum yfirlitssýning á verkum hennar. Ferill Eyborgar er mjög sérstakur. Hún er alin upp á afskekktum stað, í Ingólfsfirði á Ströndum. Fór í skóla á Laugarvatni en veiktist og þurfti að liggja tvö ár á Vífilsstöðum.
Hún settist að í Reykjavík 1945 og starfaði á skrifstofu hjá Búnaðarfélagi Íslands. Á starfstíma sínum þar fór hún að mála í frístundum – 1959 tók hún sig til og flutti til Parísar. Þar bjó hún í sex ár, fann sig ekki í skólanámi en naut leiðsagnar hjá heimsfrægum listamanni, Victor Vaserely. Í mjög skemmtilegu viðtali sem birtist við Eyborgu í Alþýðublaðinu 1966 sagði hún:
„Ég hef eiginlega aldrei verið í skóla, það fór allt í hundana eins og ég sagði þér. Ég hef heldur aldrei verið á Akademíu og þess vegna halda sumir vinir mínir að ég kunni ekki að teikna mynd af ketti, af því að ég hef enga þörf fyrir að sanna þeim að ég kunni að teikna kött. En það eru sjálfsagt margir sem teikna kattarmynd betur en ég. Það lærir enginn að verða málari — tæknihliðina, jú, en ekki hitt að skapa mynd. Ég vona að þetta sé nógu skilmerkilega að orði komizt. Ég er ekki sérlega orðfim um myndlist; hef aldrei álitið það nauðsynlegt að útskýra myndirnar mínar eða það sem ég álít að verkið segi sjálft með því að vera til.“
Eyborg hélt sig alla tíð við flatarmálslistina. Hún hélt þrjár einkasýningar á Íslandi eftir komuna heim frá París. Sú síðasta var í Norræna húsinu 1975. Hún dó 1977, aðeins 53 ára. Hér er Facebook-síða um hana og verk hennar. Og svona lítur hún út myndin eftir hana sem hangir á Mokka og verður þar vonandi til eilífðarnóns. Því á Mokka hreyfist tíminn hægt.