Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Blaðið segist hafa heimildir fyrir að Birgir Þórarinsson og Sigurður Páll Jónsson, þingmenn Miðflokksins, séu mjög ósáttir við framgöngu og endurkomu samflokksmanna sinna en Birgir og Sigurður tóku ekki þátt í Klausturssamkomunni. Þeir eru því sagðir ekki síður landlausir í þinginu en Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason.
Fréttablaðið hefur eftir heimildarmönnum úr öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokknum að Birgir og Sigurður séu á leið í hann. Þetta sverja Sjálfstæðismenn þó af sér og telja að einhver tími muni líða áður en þeir færa sig á milli flokka enda sé samningsstaða þeirra veik. Síðan er spurning hvaða áhrif endurkoma Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, hefur á þessa viðkvæmu stöðu sem nú er uppi í þinginu. Hermt er að hann íhugi að setjast aftur á þing í næstu viku.
Fréttablaðið segir einnig að titringur sé innan stjórnarmeirihlutans vegna uppákomunnar í umhverfis- og samgöngunefnd í gær og virðist Klaustursmálið einnig vera farið að þvælast fyrir meirihlutanum. Blaðið segist hafa heimildir fyrir að töluverðs leiða gæti í þingliði og grasrót Vinstri grænna vegna málsins og ekki síst vegna framgöngu Steingríms J. Sigfússonar og Ara Trausta Guðmundssonar.