fbpx
Mánudagur 06.janúar 2025
Eyjan

„Trúfélög eiga lítið erindi í þarfa umræðu um líkamlegt sjálfræði kvenna“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 29. janúar 2019 11:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frumvarp heilbrigðisráðherra um breytingar á þungunarrofi (áður fóstureyðing) mun að óbreyttu leyfa þungunarrof til loka 22. viku meðgöngu. Núgildandi lög heimila þungunarrof aðeins til loka 16. viku meðgöngu, nema í undantekningartilfellum. Málið er nokkuð umdeilt, ekki eru allir á eitt sáttir við breytingarnar og segja gengið á rétt ófæddra barna.

Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, skrifar um málið í leiðara blaðsins í dag, en umsagnarfrestur um frumvarp heilbrigðisráðherra er nýliðinn. Kjartan segir að við lestur umsagnanna blasi við að trúfélög eigi ekki að vera skipta sér af líkama kvenna:

„…ef það er eitthvað sem blasir við þegar rýnt er í innsend erindi þá er það sú staðreynd að trúfélög eiga lítið erindi í þarfa umræðu um líkamlegt sjálfræði kvenna. Þetta ætti svo sem ekki að koma neinum á óvart, enda hafa boðberar fagnaðar­erindis af öllum gerðum gert tilkall til yfirráða yfir æxlunarfærum kvenna í gegnum aldirnar. Á sama tíma er gleðilegt að sjá þau jákvæðu viðbrögð sem frumvarpið fær frá þeim sem löngun hafa haft til að kynna sér málið af yfirvegun.“

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, segist í sinni umsögn andsnúin því að orðið „þungunarrof“ sé notað í stað orðsins „fóstureyðing“. Þar segir hún enn fremur að hún telji frumvarpið of róttækt.

Agnes á sér allmarga skoðanabræður, en líkt og bent var á í frétt DV sendu átta karlmenn umsagnarerindi um frumvarpið þar sem laggst var gegn breytingunni. Þeir heita, David B. Tencer, Guðmundur Örn Ragnarsson, Jónas Sen, Ólafur Magnús Ólafsson, Ólafur Þórisson, Sigurður Ragnarsson, Steindór Sigursteinsson og Sveinbjörn Gizunarson.

Sjá einnigAgnes er á móti orðinu „þungunarrof“:„Misvísandi að nota þetta nýja hugtak“

Sjá einnigÞetta eru mennirnir sem vilja banna íslenskum konum að fara í þungunarrof – „Mér finnst það ógeðslegt“

Kjarni málsins

Kjartan segir umræðuna um þungunarrof aldrei geta orðið einfalda, en huga þarf að því hver kjarni málsins sé. Hann nefnir að fóstureyðingar hafi verið hluti af erfiðum veruleika landsmanna í hartnær öld, en í gær voru 84 ár síðan að Ísland lögleiddi fóstureyðingar:

„Umræðan um fóstureyðingar snýst því um ákveðna grunnþjónustu í okkar samfélagi og hvernig við veitum hana með skilvirkum og skynsamlegum hætti þar sem við virðum sjálfsákvörðunarrétt verðandi mæðra og, umfram allt, treystum dómgreind þeirra. Okkur ber skylda til að veita konum sem finna sig í þeirri átakanlegu stöðu að taka ákvörðun um framhald þungunar bestu mögulegu þjónustu, líkamlega og andlega,“

segir Kjartan og nefnir, að frumvarp Svandísar Svavarsdóttur byggi greinilega á þessari mikilvægu hugsjón, sem sé rökstudd af nýjustu vísindum og þekkingu í málaflokknum. Þá minnir hann á að þungunarrof á 22. viku meðgöngu verði áfram sjaldgæfur atburður, en með breyttum lögum gefist foreldrum færi á að fá betri mynd af stöðu mála og heilsu hins ófædda barns.

Þungunarrof ekki siðferðisvandamál

Þá segir Kjartan að þungunarrof sé ekki siðferðislegt vandamál, heldur siðferðilegt álitaefni:

„Sem álitamál á það erindi í upplýsta umræðu um hvenær líf raunverulega kviknar; af hverju sum pör vilja ekki eignast börn sem líklega munu glíma við fötlun, hver réttur ófædds barns er og önnur margslungin siðferðileg álitaefni. Baráttufólk fyrir sjálfsákvörðunarrétti kvenna sem og þau sem eru á öndverðum meiði ættu að vera óhrædd við að ræða þessar mikilvægu spurningar. Það er hér, á vettvangi sálgæslu og stuðnings, sem trúfélög eiga að beita sér, líkt og þau hafa gert svo ágætlega í aldanna rás.“

Þá nefnir Kjartan að á komandi dögum muni andstæðingar frumvarpsins leggjast í skotgrafirnar:

„Í komandi umræðu um þungunarrof munum við fylgjast með þeim sem sjá pólitísk sóknarfæri í fordæmingunni. Þau munu lítið hjálpa við að afmá þá skömm sem margir upplifa við þungunarrof og munu gera lítið úr þeim félagslegu aðstæðum sem oft og tíðum búa að baki ákvörðuninni. Þau sem raunverulega hafa áhuga á að hjálpa til munu yfirgefa skotgrafirnar, viðurkenna sjálfsákvörðunarrétt kvenna og stuðla að upplýstri ákvarðanatöku.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Ruglingurinn í kringum EES-samninginn og ESB-aðild

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Ruglingurinn í kringum EES-samninginn og ESB-aðild
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sr. Davíð Þór Jónsson: Jólahaldið þitt heima í stofu er samfélagsmál, ekki einkamál þitt

Sr. Davíð Þór Jónsson: Jólahaldið þitt heima í stofu er samfélagsmál, ekki einkamál þitt
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!
Eyjan
Fyrir 1 viku

Bæjarstjóri Kópavogs vill afnema sérréttindi opinberra starfsmanna – Vísar í umdeilda úttekt Viðskiptaráðs

Bæjarstjóri Kópavogs vill afnema sérréttindi opinberra starfsmanna – Vísar í umdeilda úttekt Viðskiptaráðs
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Nýir ráðherrar fá lyklana í dag – „Þetta er bara mjög góð tilfinning“

Nýir ráðherrar fá lyklana í dag – „Þetta er bara mjög góð tilfinning“
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Íslensk verslun óttast að dragast aftur úr í samkeppni við erlenda ef hún færi ekki að selja áfengi

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Íslensk verslun óttast að dragast aftur úr í samkeppni við erlenda ef hún færi ekki að selja áfengi