fbpx
Laugardagur 02.nóvember 2024
Eyjan

Þess vegna vildi meirihlutinn ekki setja Bergþór af sem formann

Ari Brynjólfsson
Þriðjudaginn 29. janúar 2019 13:07

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Formennska í nefndum Alþingis er ákveðin með samkomulagi milli stjórnarflokka og stjórnarandstöðuflokka, það gengur ekki upp að nefndin sjálf setji af formann án þess að þingflokksformenn hafi fundað um málið og komist að samkomulagi, þá einnig um hver taki við. Þetta segir Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd, í samtali við Eyjuna.

Uppnám varð á fundi nefndarinnar í morgun þegar Bergþór Ólason, formaður nefndarinnar, mætti aftur á sinn fyrsta fund eftir að Klaustursmálið komst í hámæli. Á Klaustur Bar í nóvember í fyrra lét Bergþór ýmis orð falla, kallaði hann Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, „húrrandi klikkaða kuntu“ og að Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra væri „skrokkur sem typpið á mér dugði í“, ásamt fleiri ummælum í þá veruna. Bergþór hefur beðist afsökunar á hegðun sinni.

Segir skjaldborg slegið um Bergþór

Líkt og Eyjan greindi frá fór rúmur klukkutími af fundinum í að ræða um tillögu um að setja Bergþór af sem formann. Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, bar upp tillögu um að kosinn yrði nýr formaður nefndarinnar með stuðningi Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, þingmanni Vinstri grænna, og Hönnu Katrínar Friðrikssonar, þingmanni Viðreisnar. Hanna Katrín sagði í samtali við Eyjuna að Jón Gunnarsson, varaformaður nefndarinnar hafi borið upp frávísunartillögu. Sú tillaga var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum meirihlutans, fyrir utan Rósu Björk. Bergþór sjálfur og Karl Gauti Hjaltason, sem sat einnig á Klaustri, greiddu atkvæði með tillögu Jóns.

Sjá einnig: Bergþór situr sem fastast

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, yfirgaf fundinn áður en honum lauk. Hann sagði í samtali við Eyjuna í morgun að ástæðan hefði verið þrúgandi andrúmsloft:

„Hann [Bergþór] var í sama herbergi og ég. Ég sá Klaustur barinn út um gluggann og þetta var bara ekki alveg að gera sig. Þetta er algert bull. Ég er á þeirri skoðun að gerendur eigi að víkja, ekki þolendur.“

Helga Vala segir í færslu á Facebook að hún skilji ekki málið og talar um skjaldborg um Bergþór:

„Mér þykir þetta allt saman vera hið sérstakasta mál og skil eiginlega alls ekki hvers vegna stjórnarmeirihlutinn hefur nú ákveðið að slá skjaldborg um Bergþór.“

Vill ekki setja af stað sirkus

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við Eyjuna að hann hafi mætt seint á fundinn og ekki komið fyrr en „mestu lætin voru búin“. Aðspurður hvort stjórnarþingmenn séu að halda hlífiskildi yfir Bergþóri segir hann svo ekki vera. Sjálfur hafi hann ekki sagt hvort hann styðji Bergþór eða ekki.

„Það kom tillaga um að setja hann af sem formann án þess að það kom tillaga um hver ætti að taka við. Ryþminn á Alþingi er bara þannig að þingflokksformenn gera samkomulag um hvernig embætti og annað skiptist á milli, og hvernig við högum störfum þingsins,“ segir Vilhjálmur. Sjálfur vilji hann ekki blanda sér í málið, það sé þingflokksformanna að ákveða það. Það gangi einfaldlega ekki að leggja svona tillögu fram á nefndarfundi.

„Það gengur ekki neitt. Þetta samkomulag snýst um svo margt þannig að ég ætla ekki bara að taka einhverjar ákvarðanir í einhverri bræði inni í umhverfis- og samgöngunefnd án þess að þingflokksformennirnir, stjórnar og stjórnarandstöðu, séu búnir að semja um hvernig það er. Annars erum við bara að fara að setja einhvern sirkus af stað sem maður veit ekkert hvar endar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bjarni lukkulegur með gleðitíðindin og spáir því að vextir lækki frekar í nóvember – „Planið okkar hefur gengið upp“

Bjarni lukkulegur með gleðitíðindin og spáir því að vextir lækki frekar í nóvember – „Planið okkar hefur gengið upp“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Jón segist ekki vera rasisti – „Ég kippi mér ekki upp við svona bull og merkimiða“

Jón segist ekki vera rasisti – „Ég kippi mér ekki upp við svona bull og merkimiða“