fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Eyjan

Sigmundur Davíð segir fleiri þingmenn en sexmenningana hafa verið á Klaustri þrátt fyrir að enginn annar heyrist á upptöku

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 22. janúar 2019 13:31

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, segir að fleiri þingmenn hafi verið staddir á Klaustur Downtown Bar kvöldið örlagaríka 20. nóvember í fyrra.

Líkt og margoft hefur verið fjallað um náðust fjórir þingmenn Miðflokksins og tveir þingmenn Flokks fólksins á upptöku ræða um samstarfsfólk á þingi sem og aðra í þjóðfélaginu með grófum hætti. Þingmennirnir létu ýmis ummæli falla, rætt var um loforð um sendiherrastöðu og talað um konur sem „kuntur“. Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra var kölluð „tík“ og „gugga“ sem „spili á karlmenn eins og kvenfólk kann“, ásamt fleiri ummælum í þá veru.

Sigmundur sagði í Bítinu á Bylgunni í morgun að Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason, sem eru nú í leyfi frá þingstörfum, hafi þegar tekið út refsingu vegna málsins:

„Þeir hafa beðist afsökunar á því margfaldlega og einlæglega. Og þegar tekið út meiri refsingu en nokkur dómstóll myndi leggja á þessa menn.“

Sjálfur hafi hann beðist afsökunar: „Það er margbúið að ræða innihald þessara mála og biðjast afsökunar á því sem tilefni var til að biðjast afsökunar á.“

Eina brotið sem hafi verið framið sé upptakan:

„Með því var brotið á mannréttindum þeirra sem voru teknir og ekki síður þeirra sem talað var um.“

Hluti upptökunnar er frá því áður en þingfundi var slitið og voru þingmennirnir því á vinnutíma. Aðspurður hvort fleiri þingmenn en sexmenningarnir hafi verið þarna segir Sigmundur svo vera:

„Já reyndar voru fleiri þingmenn þarna og reyndar eins og komið hefur fram, borgarfulltrúi eða borgarfulltrúar. En það þó sýnir með þessa borgarfulltrúa, að það er búið að klippa þetta allt til, og hvers vegna birtist ekki eitt orð af því sem borgarfulltrúarnir sögðu, hvers vegna er það allt klippt í burtu.“

Vísar hann til þess að Líf Magneudóttur, borgarfulltrúi VG, og Gunnlaugur Bragi Björnsson, varaborgarfulltrúi Viðreisnar, voru einnig stödd á barnum kvöldið umrædda. DV hefur upptökurnar undir höndum og með því að hlusta á þær er ljóst þau tvö voru ekki lengi á barnum. Raunar heyrast einungis fáeinar setningar frá þeim rétt í lokin á tæplega fjögurra tíma upptökum. Þar að auki er upptakan þess eðlis að það heyrist illa í þeim hluta og erfitt er að greina nokkur orð.

Líf hefur talað um það sem „lygaspuna“ að vera dregin inn í mál sexmenninganna: „Allar tilraunir til þess að draga mig eða Gunnlaug inn í þetta á nokkurn hátt og spyrða okkur við þessa úrkynjun og mannhatur sem átti sér stað þetta kvöld eru lygaspuni frá óvildarmönnum. Blásaklaust fólk hefur verið dregið inn í þetta mál en ábyrgðin er alfarið sexmenninganna. Ég vísa þessu því alfarið til föðurhúsanna,“ sagði Líf í færslu á Facebook í byrjun desember.

Sigmundur, sem hefur sagt að hann viti dæmi um grófari hluti en rætt var um á Klaustri þetta kvöld, var spurður hvort hinir þingmennirnir hefðu talað á sömu nótum og Gunnar Bragi, hann sagði:

„Nei ég myndi nú alls ekki segja það, en þar var verið að ræða pólitísk málefni líka.“

Ekki náðist í Sigmund Davíð Gunnlaugsson við vinnslu fréttarinnar.

Rétt er að halda því til haga að DV hefur tæplega fjögurra tíma upptökur Báru Halldórsdóttur undir höndum og er alveg ljóst af margítrekaðri hlustun að ef aðrir þingmenn voru á svæðinu þá sögðu þeir ekki mikið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK