Listamaðurinn Oddur Eysteinn Friðriksson, eða Odee eins og hann nefnir sig að listamannsnafni, vildi fyrir rúmum tveimur árum síðan færa Fjarðabyggð einstaka gjöf, 5 metra álverk eftir hann sjálfan. Verðmæti verksins er áætlað 2,5 milljón. Gjöfin var háð einu skilyrði, að verkið yrði hengt upp í sundlauginni á Eskifirði, úti þar sem gestir laugarins gátu virt það fyrir sér um ókomna tíð.
Ekkert bólaði á jákvæðu svari við gjöfina, og í kjölfarið hófust bréfaskrif, fundir, tafir og pólítík. Í pistli sem Odee skrifar á Austurfrétt.is í dag, rifjar hann upp málið og ber gjöfina saman við plastaðan bannmiða sem hangir uppi í sundlauginni þar sem verkið hefði átt að vera.
„Ég sit hér í heita pottinum við Sundlaug Eskifjarðar og reyni að slaka og mýkja vöðvana eftir æfingu. Mér er litið á steingráa klumpinn sem kallast veggur og drottnar yfir pottunum. Veggurinn er yfirþyrmandi dökkur og þvingandi að horfa á. Eitt hvítt A4 blað hangir á veggnum, plastað. Þar stendur: „NOTICE, No Cameras, No Cell Phones, No Video.“
Blaðið stingur í stúf, fáránleg og illa framsett tilkynning, hengt upp af handahófi á vegginn. Á öðrum vegg stendur klukka með Landsbankaauglýsingu yfir. Frá sama Landsbanka og lokaði hinu sögulega útibúi á Eskifirði fyrir sjö árum. Þótt hann hafi stungið af eftir rétt tæplega 100 ár hér í bæ er gott að vita að við höldum tryggð við þessa stofnun með klukkunni góðu í sundlauginni.
Á viðarveggnum handan sundlaugarinnar hanga veðraðar og tuskulegar myndir. Viðarvegg sem hefði með öllu réttu átt að vera úr gleri til þess að spilla ekki útsýni gesta af hinni einstöku náttúru sem Eskifjörður hefur uppá að bjóða.
Ég hef oft virt veggi og umgjörð sundlaugarinnar fyrir mér. Fyrir þremur árum fékk ég þá hugdettu að hanna listaverk sem myndi bæta upplifun og auka ánægju gesta um Eskifjarðarsundlaug. Ég fékk þessa hugmynd eftir að hafa heimsótt Akureyrarsundlaug, en hún státar af mörgum einstökum listmunum, gestum til yndisauka. Hví ættum við Eskfirðingar ekki að njóta hins sama og bjóða uppá fallega list í bland við þá slökun og hugarró sem heitir pottar veita?
Það varð svo að ég hannaði listaverkið Jötunheima, 5 metra álverk, sem gat staðið úti. Hannað sérstaklega fyrir þennan steingráa vegg yfir pottunum.
Í lok vetrar 2016 fékk ég styrk til þess að halda sýningu á Egilsstaðaflugvelli. Ég nýtti tækifærið og lét framleiða þetta 5 metra álverk, og gerði nokkur systurverk samhliða Jötunheimum til þess að fylla upp í heila sýningu í komusal Egilsstaðaflugvallar.
Sýningin vakti mikla athygli og var meðal annars til umfjöllunar í fréttatíma Ríkissjónvarpsins á jóladag sama ár.
Ég setti mig í samband við Fjarðabyggð samhliða uppsetningu á sýningunni og kynnti fyrir þeim hugmyndina að því að gefa álverkið Jötunheima, gegn því að það yrði hengt upp í sundlauginni á Eskifirði. Því var vel tekið frá upphafi.
Í kjölfarið hófst tveggja ára bréfaskriftir, nefndarstörf, tafir og pólitík. Flokkar í andstöðu gagnrýndu gjörninginn við hvert tækifæri og töfðu hann. Þannig þurfti bærinn umsögn frá arkitekt hússins og Myndstefi. Þá þurfti að semja heilt regluverk um kaup á útilistaverkum með samstarfi við Listaháskóla Íslands og fleiri aðila.
Að lokum var verkið, að ég tel, orðið að pólitísku bitbeini milli flokka. Nú átti ekki að eyða fjármagni í uppsetningu á þessu útilistaverki heldur nota það til þess að fara yfir þau listaverk sem bæjarfélagið á, skoða ástand og virða fyrir sér heildina.
Ég spyr mig nú nokkrum mánuðum síðar, sitjandi í heita pottinum með plastaða A4 blaðið hangandi yfir mér, hvort það hafi gengið í gegn um sama tveggja ára ferlið og Jötunheimar, sem átti að fara á þennan sama vegg. Sömuleiðis spyr ég mig hvort búið sé að skrásetja og virða fyrir sér plastaða A4 blaðið, Landsbankaklukkuna og veðruðu myndirnar á viðarveggnum?
Með virðingu og vinsemd,
Odee“