Bjarni Benediktsson og Guðlaugur Þór Þórðarson sátu fyrir svörum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun, þar sem rædd var skipan sendiherra, í kjölfar frétta af Klaustursupptökum Báru Halldórsdóttur, þar sem Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, taldi sig eiga inni greiða hjá Sjálfstæðisflokknum vegna skipan hans á Geir H. Haarde sem sendiherra í Washington. Á upptökunum heyrist Sigmundur Davíð Gunnlaugsson staðfesta orð Gunnars Braga, en allir hlutaðeigandi hafa síðan neitað fyrir að upplýsingarnar í samtalinu hafi verið réttar.
Miðflokksmennirnir Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi mættu ekki á fundinn, en lesin var upp yfirlýsing frá þeim við upphaf fundar. Í yfirlýsingu Gunnars Braga kom að hann myndi ekki taka þátt í slíkri „sýningu“ sem byggð væri á ólöglegri upptöku af trúnaðarspjalli. Ljóst væri að ekki væri verið að fjalla um málið á hlutlægan hátt. Honum bæri ekki skylda til að mæta á fundinn, sem boðaður væri til að koma „höggi“ á andstæðinga. Sagðist hann viðurkenna að hafa farið með rangt mál á Klaustri og hefði ekkert við það að bæta.
Í yfirlýsingu Sigmundar var tekið fram að engin rannsókn hefði verið gerð á upptökunum og ógjörningur að segja til um hvað hefði verið klippt úr þeim og hvað hefði verið „soðið“ saman. Sagði hann að Helga Vala Helgadóttir, formaður nefndarinnar, hafi efnt til fundarins til að „gefa upp boltann“ fyrir óprúttna aðila til að gerast enn aðgangaharðari.
Guðlaugur Þór var spurður hvort það væri rétt að hann og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefðu hist á fundi til að ræða hinn meinta greiða sem Gunnar Bragi taldi sig eiga inni. Kannaðist Guðlaugur Þór við fundinn, líkt og hann hefur áður sagt, en vildi ekki meina að Gunnar Bragi eða aðrir ættu inni neina greiða er varðar utanríkisþjónustuna og kannaðist hann heldur ekki við neinn þrýsting í þeim efnum, Bjarni Benediktsson hafi ekki skipað honum að gera nokkurn hlut. Því til staðfestingar benti hann á að enginn sendiherra hefði verið skipaður í hans ráðherratíð, og það stæði ekki til. Þvert á móti hefði sendiherrum fækkað um þrjá í hans ráðherratíð.
Aðspurður um fyrirkomulagið á skipun sendiherra, hvort ekki mætti auglýsa stöðurnar í stað þess að skipa þær pólitískt, sagði Guðlaugur Þór ekki vilja breyta fyrirkomulaginu, nema þá helst að skipun sendiherra væri ekki til æviloka, líkt og tilfellið sé nú.
„Við værum þá að fara leið sem engin önnur þjóð hefur farið,“ sagði Guðlaugur Þór.
Bjarni Benediktsson neitaði einnig allri óeðlilegri aðkomu að málinu og ítrekaði að hann hafi enga aðkomu átt að skipan Geirs H. Haarde sem sendiherra í Washington. Hann kannaðist hinsvegar við áhuga Gunnars Braga á störfum fyrir utanríkisþjónustuna.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, spurði Bjarna hvort hann gæti ekki greitt götu sína varðandi sendiherrastöðu.
„Það er meira en sjálfsagt að reyna að greiða götuna fyrir þinn áhuga en ég lofa engu,“
sagði Bjarni glettinn og mátti greina hlátur nefndarmanna.