fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Kári segir félagshyggjuflokkana ekki lengur vera málsvara verkalýðsins – „Vera þeirra á valdastól er orðin aðför að þeim sem minna mega sín“

Kristján Kristjánsson
Föstudaginn 11. janúar 2019 07:44

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, skrifar grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann skýtur föstum skotum á hinu svokölluðu félagshyggjuflokka og segir þá ekki lengur vera málsvara verkalýðsins. Þeir hlúa ekki lengur að hinum minni máttar í samfélaginu þrátt fyrir kosningaloforð þar um segir Kári.

Kári hefur grein sína á því að segja frá þingsályktunartillögu sem faðir hans lagði fram um að launamunur í landinu ætti aldrei að vera meiri en svo að þeir sem mest bæru úr býtum hlytu tvisvar sinnum meira en þeir sem minnst fengju.

„Hann byggði þetta á býsna gamalli aflaskiptareglu sem hafði reynst vel á fátæku Íslandi. Ég er nokkuð viss um að hann reiknaði ekki með því að tillagan yrði samþykkt og það má vel vera að hann hafi ekki einu sinni verið á þeirri skoðun að hún væri framkvæmanleg. Kveikjan að tillögunni var hins vegar sú trú að launamunur væri of mikill í landinu, að munurinn á þeim sem áttu og þeim sem áttu ekki væri of mikill og það væri mikil vægt að lítilmagninn ætti rödd á Alþingi.“

Segir Kári og rifjar síðan upp að staðan í stjórnmálum landsins hafi þá verið með allt öðrum hætti en í dag.

„Þetta var á þeim tíma þegar það hefði þótt hlægileg bjartsýni að reikna með því að tveir valdamestu einstaklingarnir á Íslandi, forsætisráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík, gætu einhvern tíma verið báðir úr röðum félagshyggjuflokkanna. Nú er liðin tæp hálf öld síðan faðir minn lagði fram þingsályktunartillöguna og tæpt ár síðan Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, varð forsætisráðherra á sama tíma og borgarstjórinn er Samfylkingarmaður. Tíminn er ólíkindatól. Það er engin lykt af honum, ekkert bragð og engin áferð sem má finna með næmum fingurgómum og hann sést ekki en það sjást á öllu breytingar við það eitt að hann líði.“

Segir Kári og víkur síðan penna að þeim breytingum sem hann segir að hafi orðið á félagshyggjuflokkunum á hálfri öld.

„Eitt af því sem hefur breyst á hálfri öld er að félagshyggjuflokkarnir eru ekki lengur málsvarar verkalýðsins á Íslandi. Þeir hlúa ekki lengur að minni máttar í íslensku samfélagi þó að fyrir kosningar segist þeir gera það heldur hlúa þeir að öðrum þeim sem segjast vilja hlúa að minni máttar en gera það ekki.“

Sýna verkalýðnum nánast fyrirlitningu

Kári segir að félagshyggjuflokkarnir líti nánast niður á verkalýðinn af ýmsum ástæðum.

„Það liggur við að þeir sýni verkalýðnum fyrirlitningu af því að hann talar ekki nægilega gott mál, les ekki bækur og er með vitlausar skoðanir á alls konar málum.“

Þá segir hann að forsætisráðherra og borgarstjóri glími við þann vanda að enginn trúi því að hagur lítilmagnans sé þeim ofarlega í huga.

„Bæði forsætisráðherra og borgarstjóra gengur illa að tjá sig þannig að nokkur maður trúi því að þeim sé hagur lítilmagnans ofarlega í huga þótt enginn vafi leiki á því að þau vildu hann sem mestan svo fremi sem ekki þurfi að fórna miklu fyrir hann. Til dæmis um vanda forsætisráðherra er útvarpsþáttur sem hún mætti í ásamt Styrmi Gunnarssyni rétt fyrir áramótin þar sem honum var tíðrætt um misskiptingu veraldlegra gæða á Íslandi. Svar hennar við því var að hún hefði ekki komið inn í VG úr gamla Alþýðubandalaginu heldur sem umhverfissinni. Það mátti skilja þau ummæli þannig að hún væri enginn gamaldags sósíalisti og þar af leiðandi væri misskipting auðs ekki hennar stóra mál. Þau orð sem hún hefur látið falla um ákvarðanir kjararáðs eru líka þess eðlis að þau verða ekki túlkuð á annan veg en þann að henni finnist að mörgu leyti erfitt að vera talsmaður meira launajafnræðis í samfélaginu.“

Borgarstjóri fær einnig sinn skammt frá Kára.

„Borgarstjóranum okkar er ekki tíðrætt um mikilvægi þess að jafna tækifæri barna úr fjölskyldum fátæktar og annarra vandræða með því að hlúa betur að leikskólum og grunnskólum. Í þess stað lætur hann skreyta fjölbýlishús með málverkum eftir Erró, punta upp á Miklubrautina og reynir að setja einhvers konar met í því hversu miklu fé megi koma fyrir í einum bragga. Kannski hin sósíaldemókratíska hugsun á bak við braggaævintýrið sé sú að vegna þess að það bjó fátækt fólk í bröggum hér áður fyrr sé göfugt að sólunda ævintýralega miklu fé í að endurbyggja einn af þeim sem einhvers konar legstein yfir fátækt í borginni. Og svo talar hann um borgarlínu eins og hún komi til með að leysa húsnæðisvanda unga fólksins, tekjuvanda fátæka fólksins, leikskólavanda barnafólksins og gera alla jafna í borginni.“

Segir Kári og bætir við að það sé ekki bara á Íslandi sem félagshyggjuflokkar hafi tapað tengslum sínum við verkalýðinn. Færa megi rök fyrir að það sé ein af ástæðum þess að utangarðsfólk flykkist að hægri öfgaflokkum beggja vegna Atlanthafsins.

Í lokin segir Kári síðan sögu af nýlegri upplifun sinni þar sem faðir hans kom við sögu.

„Ég reis úr rekkju um miðja nótt fyrir nokkrum dögum og gekk fram í stofu þar sem faðir minn heitinn sat og reykti pípu eins og hans var von og vísa. Við fórum að tala um vandræði félagshyggjuflokkanna tveggja og Katrínar og Dags. Hann kvaðst hissa á því hvað þau nýttu valdatíma sinn illa og hann sæi þess engin merki að þau væru að reyna að auka jafnræði í íslensku samfélagi. Hann hélt því fram að vera þeirra á valdastólum væri orðin aðför að þeim sem minna mega sín, þeirra fátæku og þeirra sem eru utangarðs af öðrum sökum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips
Eyjan
Í gær

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?