fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Eyjan

Verkalýðshreyfingin útilokar ekki stofnun stjórnmálaflokks: „Veltur svolítið á hvernig kjarasamningar fara“

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 7. janúar 2019 13:10

Guðmundur Helgi Þórarinsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ekki er útilokað að forysta verkalýðshreyfingarinnar sameinist um að bjóða fram þings verði kröfum þeirra ekki mætt í kjarasamningum. Í útvarpsþættinum Vinnuskúrinn á Útvarpi Sögu á laugardaginn voru þau Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður VM, Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar og Guðbjörg Kristmundsdóttir, verðandi formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur, gestir Gunnars Smára Egilssonar, stofnanda Sósíalistafélags Íslands, þar sem umræðuefnið var verkalýðsmál og pólitík.

Voru þau sammála um að það væri vel til fundið að verkalýðshreyfingin ætti rödd inni á Alþingi og útilokuðu ekki stofnun slíks flokks sem berðist fyrir réttindum verkafólks og launafólks.

Þurfa að ná eyrum Alþingis

Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna, sagði í samtali við Eyjuna að þetta kæmi vel til greina ef kröfur verkalýðshreyfingarinnar nái ekki fram að ganga:

„Þetta veltur svolítið á hvernig kjarasamningar fara, hvort pólitíkin sé tilbúin að hlusta á menn í öllum atriðum og leyfa okkur að ræða hluti eins og húsnæðismálin, verðtrygginguna, lífeyrismál og skerðingar þar, þá er kannski ekki þörf á þessu. En menn hafa stofnað flokk á skemmri tíma en þremur árum, þannig að við skulum klára þessa kjarasamninga og sjá síðan hvað gerist.“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, talaði á svipuðum nótum á Útvarpi Sögu:

Það er alveg á hreinu að ef menn ætla ekki að hlusta á almenning þá munum við þétta raðirnar og þá trúi ég því að stofnun slíks stjórnmálaafls verði að veruleika því ef kröfum verður ekki mætt þá munum við sækja fram á svið stjórnmálanna, það er alveg klárt.“

Þingmenn skorti reynslu

Guðmundur segir brýna þörf á rödd hins vinnandi manns á Alþingi, þar sé fólk sem aðeins kunni fræðin, en skorti reynslu:

„Það hefur farið í taugarnar á mér þegar verið er að ræða um hvað verkalýðsfélög eiga að gera og eiga ekki að gera, að stjórnmálamenn tala um að við (verkalýðshreyfingin) eigum að sjá um kaup og kjör en þeir sjái síðan um rest. En lífskjör manna eru miklu meira en hvað þeir fá í launaumslagið, ef ríkið tekur allt í burtu með hinni hendinni, þá er eitthvað að. Og annarsstaðar á Norðurlöndunum þykir það sjálfsagt að verkalýðshreyfingin eigi aðgang að pólitískum flokki og það þykir bæði sjálfsagt og nauðsynlegt, en hér höfum við svolítið klippt á þessi tengsl. Og ef að þróunin verður sú að við eigum ekki að hugsa um það sem verið er að gera á Alþingi, þá held ég að menn ættu að skoða þennan möguleika. Ég finn bara þá kröfu að Alþingi þurfi að hlusta betur á almenning. Við erum að eignast fólk inni á Alþingi sem hefur margt takmarkaða reynslu á atvinnulífinu. Það byggir á kenningum úr fræðunum sem ganga ekki alltaf upp. Það þarf fólk sem er tengdara verkafólki og hinum vinnandi manni.“

Ekki samstaða um Sósíalistaflokkinn

Sósíalistaflokkur Íslands hefur verið hávær í gagnrýni sinni á kjör hinna lægst settu og tekið upp hanskann fyrir verkalýðinn sem Vinstri grænir og Samfylkingin eru sagðir hafa misst og gleymt á undanförnum árum.

Guðmundur segir Sósíalistaflokkinn þó ekki vera nægilegt sameiningarafl fyrir verkalýðshreyfinguna:

„Nei það held ég ekki. Verkalýðshreyfingin verður að sameinast um miklu færri málefni en bara Sósíalistaflokkurinn stendur fyrir. Hann er byggður á hugsjón sem kannski hentar ekki öllu verkalýðsfólki. Kannski er þetta flokkur sem kemur inn einhverjum verkalýðsleiðtogum á þing, ég veit það ekki. En þegar þú byggir á svona róttækum vinstrisinnuðum hugmyndum yrði aldrei næg samstaða held ég. Ég held að það yrði að vera flokkur í svipuðum dúr og gamli Alþýðuflokkinn, en hann var kannski kominn lengra til hægri en menn vildu hafa hann í restina.“

Aðspurður hvort Guðmundur hefði áhuga á að sitja á þingi fyrir verkalýðshreyfinguna svaraði hann:

„Mér finnst það ekki mjög aðlaðandi vinnustaður.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Boða til blaðamannafundar á morgun

Boða til blaðamannafundar á morgun
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Stjórnarsáttmáli verður kynntur um helgina

Stjórnarsáttmáli verður kynntur um helgina
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Efling segir SVEIT grípa í hálmstrá – „Geta þar sjálfum sér um kennt“

Efling segir SVEIT grípa í hálmstrá – „Geta þar sjálfum sér um kennt“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Happdrættisvinningur

Óttar Guðmundsson skrifar: Happdrættisvinningur