„Verða ljósmæður fórnarkostnaður fyrir ímyndaðan stöðugleika á vinnumarkaði? Stöðugleika sem var gjörsprengdur af kjararáði þegar ráðamenn þjóðarinnar þáðu glórulausa launahækkun fyrir skemmstu.
Kröfur ljósmæðra eru hverfandi miðað við þær hækkanir sem sést hafa hjá ört stækkandi hópi fólks í fjármálageiranum og stjórnunarstöðum. (Undir formerkjum þess að mæta þurfi launum stjórnenda erlendis. Það er þvæla; það er engin eftirspurn eftir íslenskum stjórnendum í útlöndum).
Kerfisbundið virðist ekki hægt að leiðrétta kjör kvennastétta á Íslandi.
Hræsni ráðamanna er algjör í ljósi þess að þeir vísa reglulega í ræðu og riti um hið meinta góðæri nútímans. Góðæri undir forystu VG en þrátt fyrir það er hurðinni skellt framan í kvennastétt!
Er það í nafni löngu sprengds stöðugleika eða áframhaldandi stefnu í átt að einkarekstri innan heilbrigðiskerfisins?
Hvað er það í raun og sann sem veldur því að ráðamenn þjóðarinnar hvæsa nú framan í ljósmæður, á meðan að þeir lepja sjálfir rjómann?“
„Ljósmæður eru ekki öreigar.
Á mánuði eru ljósmæður með 850 þúsund krónur í heildarlaun. Meðalheildarlaun ASÍ-félaga eru um 700 þúsund krónur á mánuði. Ástæðan fyrir því að ljósmæður eru á hærri launum er sérmenntun.
Sérmenntun sína fá ljósmæður á kostnað ríkisins. Á meðan þær eru í námi standa þeim til boða niðurgreidd lán til framfærslu – líka á kostnað ríkisins.
Í ólögmætri kjarabaráttu, samanber hópuppsagnir, skreyta ljósmæður sig fatnaði með áletruninni ,,eign ríkisins“.
Við erum öll eign ríkisins. Til ríkisins greiðum við skatt og fáum margvíslegt á móti, til dæmis ókeypis menntun, heilbrigðisþjónustu og vernd laga og lögreglu fyrir lífi okkar og eignum. Ljósmæður telja sig óbundnar af þessum samningi ríkis og þegna og hafa hann í flimtingum.
Allur þorri ríkisstarfsmanna skrifaði undir kjarasamning upp á 10 prósent launahækkun. Ljósmæður setja sig ofar öðrum ríkisstarfsmönnum. Þær eru sérfræðistétt að springa úr frekju.“