Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, rituðu í dag ásamt fulltrúum Skútustaðahrepps og fulltrúa Landgræðslu ríkisins, undir viljayfirlýsingu um samstarf við úrbætur í fráveitumálum við Mývatn. Unnið verður að framkvæmd þróunarverkefnis, sem felst í því að taka seyru úr skólpi íbyggð við Mývatn og nýta hana til uppgræðslu á illa förnu landi á Hólasandi.
Leitað hefur verið lausna um hríð á fráveitumálum við Mývatn, ekki síst vegna áhyggna vísindamanna um að næringarefni úr fráveitu geti haft neikvæð áhrif á lífríki vatnsins. Lausnin sem nú verður unnið að er að miklu leyti nýmæli á Íslandi, en hún felst í aðskilnaði sk. svartvatns og grávatns, þar sem svartvatni er safnað og ekið burt og það síðan nýtt fjarri vatninu til landgræðslu.
„Þetta er góð lausn fyrir Mývatn og fyrir umhverfið. Ávinningurinn við þetta er þríþættur; álag á lífríki Mývatns minnkar, næringarefnin eru nýtt sem áburður til landgræðslu og þessi lausn er hagkvæmari en þær lausnir sem hafa lengst af verið á borðinu. Hér er varúðarreglan virkjuð og hagsmunir náttúrunnar hafðir í fyrirrúmi.“
segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.
„Með þessari viljayfirlýsingu er staðfestur ríkur vilji ríkisstjórnarinnar til að koma að þessu mikilvæga verkefni með heimamönnum“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
„Ein helsta forsenda fyrir aðkomu ríkisins að málinu er hið einstaka lífríki Mývatns- og Laxársvæðisins sem nýtur verndar að lögum en Mývatn var fyrsta svæðið sem Ísland tilkynnti til alþjóðlegrar skrár um verndun votlendis á grundvelli Ramsar-sáttmálans. Það er sérstakt gleðiefni hversu vel heimamenn hafa haldið á þessu verkefni í samstarfi alla aðila. Þannig hefur verið fundin hagkvæm og umhverfisvæn lausn með aðkomu íslenskra sérfræðinga á fjölmörgum sviðum, allt frá verkfræði til landgræðslu.“
Umræða hefur verið um ástand lífríkis í Mývatni um nokkra hríð, meðal annars á Alþingi. Vísindamenn hafa lýst yfir áhyggjum að innstreymi næringarefna af mannavöldum kunni að ýta undir bakteríublóma og fleiri neikvæða þætti í vistkerfi vatnsins. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið lét gera úttekt á fráveitumálum við Mývatn 2017 og í kjölfar hennar gerði Skútustaðahreppur umbótaáætlun, þar sem fram kom að sveitarfélagið taldi sig ekki geta hrint henni í framkvæmd án aðstoðar ríkisvaldsins, þar sem kröfur væru strangar og umbætur dýrar fyrir fámennt sveitarfélag. Í desember 2017 ákvað ríkisstjórnin að ganga til viðræðna við Skútustaðahrepp um mögulega aðkomu ríkisins að fráveitumálum. Skútustaðahreppur setti svo fram nýja umbótaáætlun, sem var samþykkt af heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra í mars. Í kjölfar þess var gengið frá samkomulagi um aðkomu ríkisvaldsins að umbótaáætluninni, verkaskiptingu aðila og fjármögnun. Það samkomulag var formfest í viljayfirlýsingunni sem ritað var undir í dag.
Samhliða umbótum í fráveitu verður vöktun á Mývatni efld, einkum á innstreymi næringarefna í vatnið. Efld vöktun af því tagi er þegar hafin undir stjórn Náttúrurannsóknastöðvarinnar viðMývatn, en hún verður frekar útfærð á næstunni.