Fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð hefur samþykkt framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar, sem fram fara þann 26. maí næstkomandi.
Jens Garðar Helgason, núverandi oddviti flokksins og formaður bæjarráðs, skipar efsta sæti listans en Sjálfstæðisflokkurinn er með þrjá fulltrúa í núverandi bæjarstjórn Fjarðabyggðar. Talsverð endurnýjun er á listanum frá því í kosningunum árið 2014. Konur eru í meirihluta frambjóðenda en listann skipa tíu konur og átta karlar.
Jens Garðar segir það ánægjuefni hversu margir óskuðu eftir sæti og sýndu áhuga, sérstaklega konur. „Það er mikilvægt að ná saman hóp sem á skírskotun í alla byggðakjarna, aldurshópa, málaflokka og þá fjölbreytni sem Fjarðabyggð hefur hvort sem það er í atvinnulífinu, menningu eða íþrótta- og æskulýðsmálum. Ég er mjög ánægður með listann, fólk með mikla reynslu og með ólíkan bakgrunn.“
Tillaga uppstillingarnefndar var samþykkt einróma og fylgir framboðslistinn hér að neðan.