Staksteinar Morgunblaðsins saka Viðreisn um dylgjur og tvískinnung í dag, þar sem viðbrögð flokksins í vantraustsmálinu eru borin saman við meðferð málsins um lækkun kosningaaldurs. Er vísað í gagnrýni Bergþórs Ólasonar þingmanns Miðflokksins, sem sakaði Viðreisn um tækifærismennsku í pontu Alþingis, er hann sagði flokksmenn Viðreisnar hafa lýst vantrausti á dómsmálaráðherra þar sem hún hlustaði ekki á ráð sérfræðinga sinna. Síðan hafi þeir ekki sjálfir hlustað á ráð sérfræðinga úr sama ráðuneyti í meðferð málsins um lækkun kosningaaldurs.
Yfirskrift Staksteina er „Dylgjur og tvískinnungur“:
„Skömmu fyrir páska sýndu þingmenn Viðreisnar af sér óvenjulegan tvískinnung í meðferð málsins um kosningarétt 16 og 17 ára barna sem ekki fékkst afgreitt. Ákveðnir þingmenn annarra flokka, meðal annars Bergþór Ólason, Miðflokki, fóru ágætlega yfir þetta og bentu á hvernig þingmenn Viðreisnar höfðu stutt tillögu um vantraust á ráðherra, meðal annars með því að vísa í álit embættismanna, en vildu í þessu máli ekkert með álit sömu embættismanna gera. Bergþór benti á að tækifærismennska einkenndi meðferð kosningaréttarmálsins og sagði svo: „Það eru ekki nema nokkrir dagar síðan menn stóðu hér útþandir af réttlætiskennd og gerðu kröfu um að dómsmálaráðherra segði af sér, lýstu yfir vantrausti á hana, vegna þess að hún hafði ekki hlustað á sérfræðinga í dómsmálaráðuneytinu. Og hvað gerist núna? Það koma sérfræðingar úr þessu sama dómsmálaráðuneyti, vara við því hvernig haldið er á þessu máli, og þá bara allt í einu skiptir það ekki nokkru máli.“
Þá þykir höfundi Staksteina ótækt að Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, hafi ekki beðist afsökunar á orðum sínum í umræðuþætti:
„En það var ekki bara að þingmenn Viðreisnar gæfu allt í einu ekkert fyrir álit embættismanna dómsmálaráðuneytisins. Í umræðuþætti dylgjaði Jón Steindór Valdimarsson um það að varnaðarorð í umsögn dómsmálaráðuneytisins vegna kosningaréttarmálsins mætti rekja til þess að refsa ætti flutningsmanni frumvarpsins. Síðan er liðin meira en vika og enn hefur enginn vandlætarinn fundið að þessu, hvað þá að þingmaðurinn hafi beðist afsökunar.“