Ísland gerðist í dymbilvikunni aðili að Equal Rights Coalition sem er hópur ríkja sem vinna saman að því að tryggja að hinsegin fólk (LGBT+) hvarvetna fái notið allra mannréttinda. Aðild að bandalaginu er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en þar kemur fram að stefnt skuli að því að koma Íslandi í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks.
Equal Rights Coalition var hleypt af stokkunum á alþjóðlegri ráðstefnu um mannréttindi hinsegin fólks sem fram fór í Montevideo í Úrúgvæ í júlí 2016. Aðildarríkin skiptast á upplýsingum um stöðuna heimafyrir, til að tryggja frekari framgang réttinda, en litið er svo á að úrbóta sé alls staðar þörf þótt aðstæður sé vissulega ekki alls staðar þær sömu.
Ennfremur er lögð áhersla á að bandalagið beiti sér sameiginlega þegar þörf krefur, með því að reyna að hafa jákvæð áhrif á ríki, þar sem rammt hefur kveðið að brotum gegn hinsegin fólki. Þá er lagt mikið upp úr því að eiga gott samráð við frjáls félagasamtök, sem vinna að bættum réttindum hinsegin fólks, sem og viðeigandi stofnanir Sameinuðu þjóðanna. Sérstök áhersla er lögð á að fylgja málum fram á grundvelli Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
Kanada og Chile hafa verið í forystu Equal Rights Coalition undanfarið ár og m.a. lagt áherslu á að fjölga aðildarríkjum bandalagsins. Fjögur ríki gengu til liðs við bandalagið á fundi í gær, sem haldinn var í Washington í Bandaríkjunum, en auk Íslands var um að ræða Danmörk, Lúxemborg og Grænhöfðaeyjar. Eiga þá alls þrjátíu og níu ríki aðild að Equal Rights Coalition, þ.m.t. öll Norðurlöndin. Framundan er stór ráðstefna, sambærileg við þá sem haldin var í Montevideo í júlí 2016. Hún verður haldin í Vancouver í Kanada 6.-8. ágúst nk. undir yfirskriftinni: Global Conference on LGBTI Human Rights and Inclusive Development og er gert ráð fyrir að ráðstefnuna sæki á bilinu 300 til 400 fulltrúar ríkja og frjálsra félagasamtaka.