Á tíma Davíðs Oddssonar kom Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík sér upp því fyrirkomulagi að birta fá en mjög skýr kosningaloforð. Í næstu kosningum á eftir var listinn svo birtur – og tilkynnt að loforðin hefðu verið efnd. Loforðin voru ekki alltaf sérlega stór, það var passað upp á að þau væru efnanleg.
Þetta er auglýsingin frá kosningunum 1982, árið sem Davíð Oddsson komst til valda í Reykjavík. Þarna er því til dæmis lofað að fækka borgarfulltrúm, leggja niður framkvæmdaráð svokallað, og svo að hætta við hluti eins og íbúðabyggð í Laugardal, síldarplön í Tjörninni og byggð við Rauðavatn.
Að ógleymdu því að selja ungversku Ikarus-strætisvagnana.
Eyþór Arnalds kynnti í gær loforð Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar 26. maí. Það vekur athygli hversu loforðin eru stór.
Því er lofað að byggja 2000 íbúðir á ári. Að stytta ferðatíma til og frá vinnu um 20 prósent. Fella niður fasteignaskatt á 70 ára og eldri. Að öll börn fái leikskólapláss við 18 mánaða aldur. Að svifryksmengum fari ekki yfir heilsuverndarmörk. Að Reykjavík verði grænasta borg Evrópu. Að afgreiðslutími í kerfinu verði styttur um helming.
Flest eru þessi markmið afar góð. En þetta eru mjög stór loforð – risastór miðað við það sem Davíð var að lofa á sínum tíma. Líklega mjög erfitt að efna þau á einu kjörtímabili – sumt virkar reyndar frekar eins og háleit framtíðarmarkmið.