fbpx
Mánudagur 06.janúar 2025
Eyjan

Ekki þriðja heimsstyrjöldin – takmarkaðar og táknrænar árásir og Rússar látnir vita

Egill Helgason
Laugardaginn 14. apríl 2018 13:13

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður verður var við miklar áhyggjur hjá almenningi vegna Sýrlandsstríðsins. Skiljanlega. Þetta virkar eins og óskiljanlegur hrærigrautur, flækja þar sem óvænt atvik geta valdið því að allt fer í bál og brand og enginn ræður við neitt. Samanburðurinn við heimsstyrjöldina fyrri er áleitinn. Þar voru stórveldi að yggla sig, bakgrunnurinn var kapp um áhrif í heiminum, þetta var á nýlendutímanum þegar þótti sjálfsagt að læsa klónum í auðlindir þjóða út um allan heim. Sagan um það hvernig fyrri heimsstyrjöldin braust út er næstum óskiljanleg – það verður líka að segjast eins og er, það er mjög leiðinlegur lestur.

Sýrlandsstríðið er ekki auðskilið heldur. Rússar, Íranir og sveitir frá Hezbollah veita Assad forseta og her hans stuðning. Tyrkland styður andstæðinga Assads, en er líka að sprengja Kúrda, og það er svo merkilegt að eftir að sló í býnu milli Rússa og Tyrkja 2015 eru Pútín og Erdogan nú komnir í vinasamband, svo Nató hefur áhyggjur af. Ísrael og Saudi-Arabía ota sínum tota, en Bandaríkin eru þarna Íraksmegin, beita sér lítið í sjálfu borgarastríðinu í Sýrlandi, en hafa lagt áherslu á að ráða niðurlögum ISIS.

Mönnum hefur jafnvel flogið í hug að þarna væri kveikjan að nýrri heimsstyrjöld, þeirri þriðju. Atburðarásin magnaðist upp í vikunni þegar efnavopnaárásin var gerð á Douma,. Deilt er um hver stóð að baki árásinni, en víst er að Assad hefur ekki skirrst við að beita efnavopnum í þessu stríði. Grimmd herja hans gegn óvinum sínum og alþýðu Sýrlands er óskapleg, líkt og hinn gríðarlegi flóttamannastraumur frá landinu ber vott um.

Sýrlandsstríðið er mesta þrætuepi á alþjóðavettvangi samtímans – og í raun dæmi um það hversu upplýsingamiðlun er óáreiðanleg á tíma samfélagsmiðla. Það hefur verið búið svo um hnútana að enginn veit lengur hvað er satt og rétt. Þetta magnar enn upp ónotatilfinninguna vegna stríðsins. Manni verður stundum hugsað til Vietnamstríðsins, í raun var fréttaflutningur þaðan einfalt mál í samanburði við þetta.

Eftir efnavopnaárásina hefst umræða um að Bandaríkin verði að svara. Þá stígur fram Alexander Zasypkin, sendiherra í Rússa í Beirút, og segir digurbarkalega að Rússar muni skjóta niður bandarískar eldflaugar ef þær verði sendar á sýrlensk skotmörk. Þetta var mjög ódiplómatískt hjá manninum, hann fór langt yfir strikið. Hinn óstöðugi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, vaknar við þetta í morgunsjónvarpi, snöggreiðist, rýkur í tölvuna og tvítar að nú fái Rússar fyrir ferðina. Svo segir hann að nýjar og „snjallar“ eldflaugarflaugar séu á leiðinni – Rússar skuli búa sig undir það.

Fáum dögum áður hafði Trump lýst því yfir að Bandaríkin ættu að draga sig frá Sýrlandi. Það væri þá stefnan að láta Assad í raun Sýrland eftir, þangað til hann finnur ekki fleira fólk til að drepa eða hrekja á flótta. Eftir atburði hlýtur enn að magnast upp umræðan um algjört vanhæfi forsetans og hversu hann er háskalegur. Það er ansi slæm tilhugsun að t.d. Natóríki þurfi að lúta forystu þessa manns í mörg ár í viðbót. Það gerir friðinn svo ennþá óstöðugari að mótaðili hans í Rússlandi er Vladimir Pútín sem er sífellt að ögra Evrópu og Bandaríkjunum með öllum tiltækum ráðum, netárásum, fölskum fréttum, inngripum í kosningar og almennum bulluhætti.

En að því sögðu, þá er ekki að brjótast út heimsstyrjöld vegna Sýrlands, ekki í þessari viku að minnsta kosti. Ewen MacAskill, sem fjallar um varnarmál í Guardian, skrifar um árásirnar í blaðið í dag. Hann segir að loftárásum Bandaríkjamanna með stuðningi Breta og Frakka hafi verið beint gegn mjög þröngum skotmörkum sem tengist efnavopnum. Það verði ekki fleiri árásir, aðgerðunum sé lokið. Skilaboðin snúist eingöngu um að notkun efnavopna sé lína sem ekki megi stíga yfir. Þetta sé langt í frá að vera upphafið að þriðju heimsstyrjöldinni.

Skotmörkin virðast hafa verið þrjú, en þess var vandlega gætt, segir MacAskill, að fara hvergi nærri rússnesku sveitunum sem eru í Sýrlandi og ekki þeim írönsku heldur. Fréttir benda ti þess að sáralítið mannfall hafi orðið. Bandaríkin létu Rússa vita fyrirfram hvert árásirnar beindust. Rússar gerðu heldur ekki gagnárásir, eins og þeir höfðu hótað. Bandaríkin og Rússland voru semsagt í sambandi allan tímann. Hann telur líka ólíklegt að Rússar vilji taka þá áhættu að magna upp átök nú þegar heimsmeistaramótið í fótbolta hefst brátt í Rússlandi. Og svo er hitt, sem hann nefnir, að þótt Rússar hnykkli vöðvana séu þeir í raun svo miklu hernaðarlega veikari en Bandaríkin núorðið. Aðalstrategía Pútíns virðist í raun vera að rugla andastæðinga sína í ríminu.

MacAskill segir í Guardiangreininni að þetta hafi verið eins vægar árásir og hægt var að komast af með. Þær séu fyrst og fremst táknrænar. Meira að segja Assad geti verið nokkuð sáttur. Það hafi ekki verið ráðist á forsetahöllina hans eða neitt gert til að koma stjórn hans frá völdum.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Ruglingurinn í kringum EES-samninginn og ESB-aðild

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Ruglingurinn í kringum EES-samninginn og ESB-aðild
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sr. Davíð Þór Jónsson: Jólahaldið þitt heima í stofu er samfélagsmál, ekki einkamál þitt

Sr. Davíð Þór Jónsson: Jólahaldið þitt heima í stofu er samfélagsmál, ekki einkamál þitt
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!
Eyjan
Fyrir 1 viku

Bæjarstjóri Kópavogs vill afnema sérréttindi opinberra starfsmanna – Vísar í umdeilda úttekt Viðskiptaráðs

Bæjarstjóri Kópavogs vill afnema sérréttindi opinberra starfsmanna – Vísar í umdeilda úttekt Viðskiptaráðs
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Nýir ráðherrar fá lyklana í dag – „Þetta er bara mjög góð tilfinning“

Nýir ráðherrar fá lyklana í dag – „Þetta er bara mjög góð tilfinning“
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Íslensk verslun óttast að dragast aftur úr í samkeppni við erlenda ef hún færi ekki að selja áfengi

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Íslensk verslun óttast að dragast aftur úr í samkeppni við erlenda ef hún færi ekki að selja áfengi