Twitter-yfirlýsing Donalds Trumps Bandaríkjaforseta frá því í gær er það galnasta sem hann hefur gert í forsetatíð sinni. Svona tala ekki þjóðhöfðingjar, hvað þá leiðtogi mesta herveldis heimsins. Þetta hljómar eins og eitthvað sem er sagt í slagsmálum utan við krá.
Sagt er að Trump hafi heyrt vitnað í óvarlegt tal rússnesks sendifulltrúa í Beirút í morgunsjónvarpi, það hafi jafnvel verið misskilningur í þýðingu, og hann rýkur á lyklaborðið og hamrar þetta inn á samskiptavefinn.
Þar varla að taka fram hvað þetta er andstætt öllu sem heitir diplómatía. Og nokkrum dögum áður hafði Trump lýst því yfir að hann vildi hverfa frá Sýrlandi með herinn. En þarna eru það nýjar og flottar eldflaugar sem eiga að tala.
Trump hefur semsagt enga stefnu. En hann rýkur upp í æðiskasti eftir því sem vindar blása á fréttastöðvum í sjónvarpi. Þarf varla frekari vitnanna við hvað hann er hættulegur friðnum.
Aðfarir Assads og rússneskra stuðningsmanna hans í Sýrlandi eru vissulega ógeðslegar. Þeir bera ábyrgð á stærsta hluta mannfallsins í landinu, tunnusprengjum sem er varpað á óbreytta borgar og efnavopnaárásum. En svona skeyti frá forseta Bandaríkjanna eru gálaus og hættuleg.