Brottfarir erlendra farþega um Keflavíkurflugvöll voru um 173 þúsund talsins í mars síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu og Isavia í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða um 5.200 fleiri en í mars á síðasta ári. Aukningin nemur 3,1% milli ára, nokkru minni en mælst hefur í mars síðustu árin. Bandaríkjamenn og Bretar voru fjölmennastir í mars en þeim fækkar á milli ára.
Hlutfallsleg aukning milli ára er minni í mars en aðra mánuði vetrarins og sé litið til vetrarins í heild (nóvember-mars) má sjá verulega minni fjölgun en síðustu ár. Þannig var aukning yfir vetrarmánuðina nú 7% á milli ára, samanborið við 59% milli vetrarins 2015-16 til 2016-17.
Frá áramótum hafa 307.600 erlendir farþegar farið úr landi um Keflavíkurflugvöll sem er 8,2% aukning miðað við sama tímabil í fyrra.
Fjölgun brottfara í mars á milli ára er nú minni en verið hefur á síðustu árum. Frá 2014 til 2017 var aukningin á bilinu 27 til 45% á milli ára en er 3% nú. Þetta er sama þróun og gætt hefur aðra vetrarmánuði en hlutfallsleg aukning milli ára er þó minni í mars en aðra mánuði vetrarins.
Á grafinu hér til hliðar má sjá 12 fjölmennustu þjóðernin í mars. Brottfarir Breta og Bandaríkjamanna voru 44,2% af heild og athyglisvert er að fækkun er frá báðum mörkuðum. Sem sjá má á grafinu er fækkun frá 6 af 12 fjölmennustu þjóðernunum. Hlutfallslega er mest fjölgun í brottförum Pólverja sem voru næstum tvöfalt fleiri í mars í ár en í fyrra en sem fyrr má leiða líkum að því að það sé í talsverðu mæli umferð pólskra ríkisborgara sem hér eru búsettir atvinnu sinnar vegna.
Sé veturinn í heild skoðaður (nóvember-mars) má glögglega sjá að ákveðin breyting hefur orðið í þeirri fjölgun sem verið hefur síðustu ár. Á myndinni hér til hliðar má sjá samanburð fjögur ár aftur í tímann, sem sýnir þetta vel. Nú í vetur varð þannig 7% aukning á milli ára en á sama tíma fyrir ári síðan var hún tæp 60%. Næstu tvo vetur þar á undan hafði aukning á milli ára verið rúm 30%.
Sé breytingin skoðuð nánar eftir mörkuðum má sjá að fækkun er nú á milli ára yfir veturinn frá Bretlandi og aðeins 3% aukning frá Bandaríkjunum, tveimur af stærstu mörkuðunum. Aukning á milli ára er mest hjá þeim sem flokkast undir „annað“ en þar undir eru meðal annars Asíubúar og Austur-Evrópuþjóðir. Nánari skiptingu þess hóps má sjá á skífuritinu hér neðar á síðunni. Hlutfallslega er nú minni aukning yfir veturinn á milli ára frá stærstu markaðssvæðunum en verið hefur síðustu ár þar á undan.
Þegar hlutfallsleg samsetning brottfara er skoðuð síðastliðna fimm vetur má sjá að hún hefur breyst nokkuð eins og sjá má af grafinu hér til hliðar. Norður-Ameríkanar voru 25% af heild veturinn 2017-18 og 26% veturinn 2016-17 sem er nokkuð hærri hlutdeild en veturna þrjá á undan. Hlutdeild Breta var hins vegar ríflega þriðjungur fyrstu þrjá veturna en í kringum fjórðungur síðustu tvo vetur. Norðurlandabúar hafa verið 6% af heild síðastliðna tvo vetur en hlutdeild þeirra að vetri hefur hins vegar minnkað.
Sá hópur sem hefur stækkað hvað mest samanstendur af ,,öðrum þjóðernum“ en þar á meðal eru Asíuþjóðir s.s. Kínverjar en fjöldi þeirra að vetri hefur ríflega fjórfaldast síðustu fimm ár. Til að fá betri mynd af samsetningu farþega var þjóðernum fjölgað úr 17 í 32 í júní á síðasta ári, en þar var meðal annars bætt við Hong Kong búum, Indverjum, Singapúr-búum, Suður-Kóreumönnum og Taívönum. Niðurstöður úr talningum sýna að 10% farþega nú í vetur má rekja til Japana og Suðaustur-Asíubúa og 6% til A-Evrópubúa.
Um 56.700 Íslendingar fóru utan í mars í ár eða 38,9% fleiri en í mars 2017. Samtals voru brottfarir Íslendinga í janúar, febrúar og mars um 136 þúsund talsins eða 20% fleiri en á sama tímabili árið 2017.
Skiptingu milli þjóðerna má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.