Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, skrifar grein í Morgunblaðið í dag, hvar hann gagnrýnir fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem er víst uppfull af ritvillum og virðist ekki hafa verið lesin yfir:
„Til dæmis eiga útflutningsverðmæti að hækka um billjón krónur á árunum 2019 – 2023. Það er þó líklega villa miðað við upplýsingar sem koma annarsstaðar fram. Einnig er 10 milljarða munur á tölum um vexti og skuldbindingar, sem var að vísu villa. Það hefur gleymst að uppfæra ártöl í ýmsum stefnumálum þar sem þau eru bara afrit frá því úr fjármálaáætlun í fyrra. En það er einmitt það sem þessi fjármálaáætlun er, afrit frá því síðast. Stefnan, í smáatriðum, er nákvæmlega eins,“
segir Björn Leví og heldur áfram:
„Það eru nokkur áhersluatriði sem eru öðruvísi, ekki vsk.-hækkun á ferðaþjónustuna. 1% lækkun á tekjuskatti sem gagnast auðvitað tekjuhærra fólki mun betur en til dæmis hækkun á skattleysismörkum. Einnig er verið að hætta við sérstakt átak í uppbyggingu leiguíbúða og húsnæðisstuðningur lækkar þannig á tímabili fjármálaáætlunarinnar. Þó efnisatriðin séu öll mjög áhugaverð þá er formið einnig mjög áhugavert. Það átti til dæmis að koma miklu betri greinargerð um það hvernig ríkisstjórnin ætlaði að uppfylla grunngildi laga um opinber fjármál. Vantar. Það er villa upp á næstum billjón krónur (já, billjón) í markmiðum um útflutningsverðmæti. Okkur er lofað skuldalækkunum til þess að minnka vaxtakostnað en samt er vaxtakostnaður að aukast yfir tímabil fjármálaáætlunarinnar. Að auki er fullt af áhugaverðum þversögnum í markmiðum málefnasviðanna. Eldri borgurum er t.d. að fjölga en eitt markmið er að þeim geri það ekki.“
Að sögn Björns Leví, höfðu svokallaðir nefndarritarar ekki fengið eintak af áætluninni:
„Til þess að fara betur yfir ýmis atriði og þessar athugasemdir sem ég var búinn að safna saman þá mælti ég mér mót við nefndarritara, en þeir aðstoða okkur þingmenn við greiningar á ýmsum þingmálum, til þess að athuga hvort ég væri nokkuð að misskilja eitthvað. Þá kom babb i bátinn, nefndarritarar höfðu ekki enn fengið eintak af fjármálaáætluninni vegna þess að það var verið að prenta nýtt upplag. Gamla útgáfan var með of mörgum villum.“
Björn Leví gagnrýnir að lokum vinnubrögðin í kringum málið allt:
„Ég hefði talið eðlilegt að þingmenn, starfsfólk og fjármálaráð hefði verið upplýst um villur um leið og vitað var um þær, sérstaklega af því að þær voru svo miklar að það þurfti að prenta nýtt upplag af áætluninni. Einnig hefði verið mjög hjálplegt að fá tilkynningu þegar það var búið að uppfæra rafrænu útgáfuna á Alþingisvefnum. Bergmálið sem ómar um þinghúsið um ný og fagleg vinnubrögð og eflingu Alþingis er mjög kaldhæðnislegt þessa dagana.“