Mjög mikill verðmunur er á fiski í fiskbúðum landsins en Verðlagseftirlitið gerði úttekt á verði í
18 fiskverslunum og fiskborðum matvöruverslana víðsvegar um landið sl. miðvikudag. Mesti
verðmunurinn var 132% en sá minnsti 21% en algengast var að verðmunurinn væri á bilinu
40-80%. Litla fiskbúðin í Hafnarfirði var með lægsta verðið í flestum tilfellum eða í 13 af 24 á
meðan hæstu verðin dreifðust meira yfir verslanirnar. Minnsta úrvalið af þeim tegundum sem
könnunin náði til var í Fylgifiskum en það mesta í Litlu fiskbúðinni í Hafnafirði. Verstu
verðmerkingarnar voru í versluninni Gallerý Fiskur en þar voru engar af þeim vörum sem
kannaðar voru verðmerktar þegar verðlagseftirlitið bar að garði.
Tvær verslanir neituðu þátttöku í könnuninni, Fiskikóngurinn og Fiskbúðin Vegamót.
132% verðmunur á ýsuhakki og 92% verðmunur á fiskibollum
Mesti verðmunurinn í könnuninni var á ýsuhakki eða 132% en í krónum talið var verðmunurinn
1.309 kr. kg. Ódýrast var ýsuhakkið á 990 kr. kg. í Litlu fiskbúðinni en dýrast var það í fiskborði
Hagkaupa á 2.299 kr. kg. Næst mesti verðmunurinn var á ferskum fiskibollum eða 92% en
lægsta verðið var í fiskborði Fjarðarkaupa, 1.298 kr. kg. en það hæsta í Fylgifiskum, 2.490 kr.
kílóið en það gerir 1.192 kr. verðmun á kíló. Mikill verðmunur reyndist einnig á
rauðsprettuflökum með roði eða allt að 80% eða 1.109 kr.verðmunur á kíló, lægsta verðið á
þeim var í Litlu fiskbúðinni, 1.390 kr. en það hæsta í Hagkaupum, 2.499 kr. kílóið. Þá var 58%
eða 800 kr. verðmunur á kílói af beinlausum ýsuflökum sem eru vinsæl vara, dýrust voru þau
í fiskborðinu í Hagkaupum á 2.299 kr. en ódýrust í Litlu fiskbúðinni Hafnafirði, 1.690 kr.
Verðmunurinn á klassíska fiskréttinum plokkfiski var einnig mikill, 62% eða 840 kr. á kíló en
hæsta verðið var í Fiskbúðinni Hafberg, 2.190 kr. kg. en það lægsta í fiskborðinu í
Fjarðarkaupum, 1.350 kr. kg. Töluverður verðmunur var á laxi sem hefur sótt í sig veðrið sem
vinsæll réttur en verðmunurinn á laxaflökum var 39% en 68% á laxi í sneiðum. Dýrust voru
laxaflökin í Kjöt og fiski á 3.200 kr. kg. en ódýrust í fiskbúðinni Trönuhrauni á 2.300 kr. kílóið.
Laxasneiðarnar voru dýrastar í Fiskbúð Hafliða í Krónunni Lindum á 2.790 kr. en ódýrastar í
fiskborðinu í Fjarðarkaupum á 1.662 kr kg.
Verðmunur oftast 40-80%
Mikill verðmunur var á nánast öllum vörum sem kannaðar voru en í 7 tilfellum af 24 var
verðmunurinn 40-50%, í 5 tilfellum 51-60% og í 7 tilfellum var verðmunurinn yfir 61%. Í 19
tilfellum af 24 er því um yfir 40% verðmun að ræða.
Sjá nánari niðurstöður úr könnuninni í töflu.
Könnunin var gerð á fiski og fiskafurðum í 18 fiskbúðum og öðrum verslunum með fiskborð
miðvikudaginn 7. mars 2018. Kannað var verð á 24 algengum tegundum fiskafurða. Könnunin
var gerð í eftirtöldum verslunum: Kjöt og fiski Bergstaðastræti, fiskborðinu Melabúðinni,
Fiskbúðinni Sundlaugarvegi, Fiskbúðinni Trönuhrauni, Fiskikónginum Sogavegi, Litlu
fiskbúðinni Helluhrauni, Hafinu fiskverslun í Skipholti, Fiskbúð Hólmgeirs, Gallerý fiski Nethyl,
Fiskbúð Sjárvarfangs Ísafirði, Fiskbúðinni Mos, Fiskbúðinni Beint úr sjó í Reykjanesbæ,
Fiskbúðinni Hafberg Gnoðarvogi, Fisk kompaní Akureyri, Fiskborðinu í Hagkaupum
Kringlunni, Fiskborðinu Fjarðarkaupum, Fiskbúð Hafliða, Fiskbúðinni Vegamót og Fylgifiskum
Borgartúni.
Fiskbúðin Vegamót og Fiskikóngurinn Sogavegi neituðu þátttöku í könnuninni og heimiluðu
ekki fulltrúum verðlagseftirlitsins að skrá niður verð í verslunum sínum.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu
söluaðila.