Á aðalfundi Samtaka iðnaðarins í morgun var Guðrún Hafsteinsdóttir, Kjörís, endurkjörin formaður með 89,5% greiddra atkvæða. Guðrún verður formaður Samtaka iðnaðarins fram til Iðnþings 2019. Ræðu Guðrúnar má lesa hér.
Alls gáfu átta kost á sér til almennrar stjórnarsetur og var kosið um fimm sæti. Þeir sem setjast í stjórn Samtaka iðnaðarins til næstu tveggja ára:
Árni Sigurjónsson – Marel
Birgir Örn Birgisson – Domino’s
Egill Jónsson – Össur
María Bragadóttir – Alvogen Iceland
Valgerður Hrund Skúladóttir – Sensa
Árni og Egill sitja áfram í stjórn en nýir eru Birgir Örn, María og Valgerður Hrund. Úr stjórn fara Agnes Ósk Guðjónsdóttir – GK-Snyrtistofa, Bergþóra Þorkelsdóttir – Ísam og Guðrún Jónsdóttir – Héðinn.
Fyrir í stjórn Samtaka iðnaðarins eru:
Katrín Pétursdóttir – Lýsi
Lárus Andri Jónsson – Rafþjónustan
Ragnar Guðmundsson – Norðurál
Sigurður R. Ragnarsson – ÍAV
Meðfylgjandi er ályktun Iðnþings 2018 sem samþykkt var á aðalfundi Samtaka iðnaðarins sem lauk rétt í þessu.
Ísland í fremstu röð – eflum samkeppnishæfnina
Alþjóðleg samkeppnishæfni hvers lands er ein af lykilforsendum bættra lífskjara. Með markvissri stefnumótun vinna stjórnvöld í flestum ríkjum heims að því að bæta stöðu síns lands í samkeppni við önnur ríki. Skýr sýn, fumlaus framkvæmd og markviss eftirfylgni leiðir til raunverulegra umbóta og leggur grunn að auknum lífsgæðum. Með því að nálgast málin á heildstæðan hátt næst meiri árangur en með því að líta eingöngu til afmarkaðra þátta, hvern fyrir sig. Á þessum grunni þurfa stjórnvöld að móta atvinnustefnu sem tengir t.a.m. saman stefnumótun í orkumálum, menntamálum og nýsköpun til að styðja við öfluga og arðbæra atvinnuuppbyggingu á Íslandi á næstu áratugum.
Atvinnulífið gegnir veigamiklu hlutverki í gangverki samfélagsins. Þar verða til störf og verðmæti sem leggja grunn að velsæld þjóðarinnar. Aukin samkeppnishæfni gagnast því ekki einungis atvinnulífinu heldur samfélaginu í heild sinni. Iðnaður er mjög umfangsmikill í íslensku efnahagslífi, greinin er fjölþætt og snertir nær alla þætti hagkerfisins. Mikil tækifæri eru til vaxtar, ekki síst með frekari virkjun hugvits og nýsköpunar.
Framleiðni er ein af grunnstoðum sterkrar samkeppnisstöðu. Þar hefur íslenska hagkerfið verið eftirbátur þeirra ríkja sem við viljum helst bera okkur saman við. Verðmætasköpun á vinnustund er lág í alþjóðlegum samanburði og framleiðni hefur aukist hægt hér á landi undanfarin ár. Á sama tíma hafa laun hækkað hratt og langt umfram það sem sést hefur í nágrannalöndunum og gengi krónunnar hefur einnig hækkað umtalsvert. Samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum hefur því versnað sem mun hafa ófyrirséðar afleiðingar til skemmri og lengri tíma. Við þessari stöðu verður tafarlaust að bregðast, einkum hvað varðar eftirfarandi helstu áskoranir.