Samkvæmt Kjarnanum ræðir stjórnarandstaðan nú um möguleikann á því að leggja fram vantrauststillögu á Sigríði Á. Andersen, dómsmálaráðherra, vegna framgöngu hennar í Landsréttarmálinu. Allir stjórnarandstöðuflokkar íhuga nú málið eftir fund þingflokksformanna stjórnarandstöðunnar í morgun og munu formenn og þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar líklega funda meira um málið á morgun og taka þá ákvörðun um hvort tillagan verði lögð fram síðar um daginn og þá tekin fyrir á fimmtudag. Einnig er greint frá þeim möguleika að leggja fram tillöguna á fimmtudag, en þá yrði hún ekki tekin fyrir fyrr en á mánudaginn 19. mars, þar sem næsta vika er svokölluð nefndarvika.
Ástæðan sem nefnd er til seinkunar tillögunni, er að þingmenn VG, þau Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, verða erlendis næstu daga, en þau neituðu að samþykkja ríkisstjórnarsamstarf VG við Framsókn og Sjálfstæðisflokkinn og eru því lykilleikmenn stjórnarandstöðunnar í atkvæðagreiðslu um málið.
Annað lykilatriði í málinu er álit umboðsmanns Alþingis, sem taldi ekki ástæðu til að hefja rannsókn að eigin frumkvæði á máli Sigríðar. Virðist sú ákvörðun ekki hafa farið vel í þingmenn stjórnarandstöðunnar.