Það var merkilegt að heyra Jóhönnu Sigurðardóttur stíga í pontu á landsfundi Samfylkingarinnar og biðja Vinstri grænum griða. Jóhanna er núorðið hinn óskoraði leiðtogi í sögu Samfylkingarinnar, flokkurinn kýs að hefja hana á stall sem stóra stjórnmálamanninn í sögu sinni en hirðir ekki mikið um aðra fyrrverandi formenn eins og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Össur Skarphéðinsson. Orð hennar hafa gríðarlega vigt innan flokksins.
Og Jóhanna segir um VG:
Þeir eru okkar samherjar og geta orðið það fyrr en okkur órar fyrir því ég hef enga trú á að þessi ríkisstjórn sitji út kjörtímabilið.
Semsagt, að mati Jóhönnu á Samfylkingin ekki að hamast of mikið í Katrínu Jakobsdóttur og Vinstri grænum. Hún áréttaði líka að Samfylkingin ætti að vera vinstri flokkur, ekki miðjuflokkur eða hægra megin við miðjuna. Þar vísar hún greinilega í tímann fyrir hrun þegar blairisminn var allsráðandi í Samfylkingunni.
Svavar Gestsson tekur upp orð Jóhönnu á Facebook og skrifar:
Jóhanna er stjórnmálamaður sem er flínk við að finna rétta tóninn á vinstri væng; þess vegna varð hún forsætisráðherra eftir hrunið, hafði þó sjálf verið í hrunstjórninni. Ummæli hennar á landsfundi Samfylkingarinnar voru þörf áminning til allra því flokkarnir tveir eiga margt og reyndar flest sameiginlegt