fbpx
Miðvikudagur 27.nóvember 2024
Eyjan

Forsætisráðherra fullyrti að íslensk stjórnvöld hefðu fordæmt framferði Tyrkja gegn Kúrdum – Engar opinberar heimildir finnast um slíkt – Uppfært

Trausti Salvar Kristjánsson
Miðvikudaginn 28. mars 2018 15:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fór í opinbera heimsókn til Berlínar í síðustu viku að hitta Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Var henni einnig boðið að sækja jafnréttisráðstefnu í Felleshus, hvar hún hélt erindi um þróun jafnréttismála.

Þar sagði Katrín að íslensk stjórnvöld hefðu gagnrýnt framferði Tyrkja í garð Kúrda, er hún svaraði spurningu út í sal. Þetta kemur fram í Kvennablaðinu.

Gallinn er sá að hvergi finnast heimildir um slíka gagnrýni stjórnvalda og hefur Eva Hauksdóttir, móðir Hauks Hilmarssonar sem talinn er hafa fallið í átökum í Sýrlandi, stofnað til undirskriftarsöfnunar þess efnis að skora á ríkisstjórn Íslands að fordæma hernaðaraðgerðir Tyrklands gegn Kúrdum.

Uppfært 29.3.18.

Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, hafði samband við Eyjuna til að upplýsa um, að Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, hefði eftir diplómatískum leiðum, fordæmt framferði Tyrkja í Sýrlandi, í hernaði þeirra gagnvart Kúrdum. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafi verið að vísa til þess í svari sínu í Þýskalandi.

Í óundirbúnum fyrirspurnartíma Alþingis frá 22. mars sagði Guðlaugur Þór að slík gagnrýni hafi farið fram örfáum dögum eftir árásir Tyrkja gegn Kúrdum þann 20. janúar síðastliðinn.

„Var það gert beint við sendiherra Tyrklands  gagnvart Íslandi og í framhaldinu var málið reifað í utanríkismálanefnd,“

sagði Guðlaugur þann 22. mars. Þessu er hér með komið á framfæri.

Eftir stendur hinsvegar, að íslensk stjórnvöld hafa ekki fordæmt framferði Tyrkja með áberandi hætti opinberlega svo heitið geti, líkt og venja er þegar blóðsúthellingar eru fordæmdar á annað borð. Þá eru fjölmiðlar gjarnan kallaðir til að fyrra bragði. Þeir hafa ekki verið kallaðir til ennþá.

Í lok dagsskrár jafnréttisráðstefnunnar í síðustu viku var opnað fyrir spurningar úr sal þar sem fyrsta spurning snerist um átökin í Sýrlandi. Samkvæmt myndbandi sem Kvennablaðið birti, bendir spyrjandinn á að útlit sé fyrir að íslenskur ríkisborgari, Haukur Hilmarsson, hafi fallið í árás bandalagsríkis Íslands í Nato, Tyrklands. Samtölin fara fram á ensku, en myndbandið er textað með íslenskri þýðingu.

Eftir tilfinningaþrunginn inngang  er Katrín spurð tveggja spurninga:

Í fyrsta lagi hver afstaða stjórnvalda á Íslandi sé til innrásar Tyrklands í Afrin og hvers vegna innrásin hafi ekki verið fordæmd.

Seinni spurningin snýst um hvernig stjórnvöld aðhefðust við að komast í raun um afdrif Hauks Hilmarssonar og hvort þau beittu Tyrklandi þrýstingi í málinu.

Því svarar Katrín til að allt væri gert sem hægt væri í máli Hauks, meðal annars hefði hún nefnt það við Angelu Merkel, sem heitið hefði stuðningi sínum og þýskra stofnana við eftirgrennslan í málinu.

Fyrri spurningunni, hver afstaða Íslands væri til innrásar Tyrkja í Afrin, svaraði Katrín því til, að stjórnvöld hefðu verið „afar gagnrýnin á framferði Tyrklands í garð Kúrda.“

Spyrjanda þótti þetta ekki fullnægjandi svar og ítrekaði sömu spurningu, en fékk sama svar, að íslensk stjórnvöld hefðu verið að gagnrýna framferði Tyrkja.

Þá spurði viðkomandi í þriðja skiptið, með tveimur valkostum:

„Eruð þið fylgjandi eða mótfallin innrásinni?“

Þá vék Katrín sér undan svari með því að segjast þegar hafa svarað spurningunni og sagði utanríkisráðherra geta staðfest það að stjórnvöld hefði verið gagnrýnin á framferði Tyrkja.

Engar heimildir virðast hinsvegar vera til um þessa meintu gagnrýni íslenskra stjórnvalda á framferði Tyrkja, þegar eftir þeim er leitað á vef Stjórnarráðsins.

 

Myndband Kvennablaðsins

Þar að auki hefur Eva Hauksdóttir, móðir Hauks Hilmarssonar, farið af stað með undirskriftarlista, þar sem hvatt er til þess að Katrín Jakobsdóttir fordæmiframferði Tyrkja gegn Kúrdum á alþjóðavettvangi, en þingflokkur VG fordæmdi Tyrki árið 2016:

„Í ágúst 2016 hvatti þingflokkur Vinstri grænna íslensk stjórnvöld til að fordæma mannréttindabrot Tyrkja gegn Kúrdum, á alþjóðavettvangi. Ekki brást þáverandi ríkistjórn við ákallinu. Nú þegar Vinsti græn eru leiðandi í ríkisstjórn er ekkert því til fyrirstöðu að þingflokkur þeirra gangist fyrir því að Íslenska ríkið taki opinbera afstöðu til innrásar Tyrkja í Rojava og fordæmi hana á alþjóðavettvangi.

Við undirrituð skorum því á forsætisráðherra landsins, Katrínu Jakobsdóttur, að beita sér fyrir því að ríkisstjórnin fordæmi innrás Tyrkja í Afrín og mannréttindabrot þeirra gegn Kúrdum. Nái það ekki fram að ganga skorum við á Katrínu að  að senda frá sér slíka yfirlýsingu í eigin nafni.“

 

Eyjan sendi fyrirspurn til forsætisráðuneytisins þann 21. mars, hvort íslensk stjórnvöld hygðust fordæma nýlegar og yfirstandandi hernaðaraðgerðir Tyrklands gegn Kúrdum með einhverjum hætti.

Ekkert svar hefur borist ennþá, utan þess, að erindi Eyjunnar hafi verið móttekið og framsent til utanríkisráðuneytisins, þó svo að spurningunni hafi sérstaklega verið beint til Katrínar Jakobsdóttur.

Erindið var ítrekað í gær, en ekki hefur borist svar þegar þetta er ritað.

Samkvæmt heimildum Eyjunnar gæti það reynst snúið fyrir íslensk stjórnvöld að gagnrýna Tyrki opinberlega þegar á samvinnu ríkjanna stendur um mál Hauks Hilmarssonar. Sú gagnrýni komi ekki til fyrr en niðurstaða sé fengin í því máli.

 

Samfylkingin sendi frá sér yfirlýsingu í dag, hvar kallað ef eftir því að framferði Tyrkja sé fordæmt af ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur:

Stöðvum ofbeldið í Sýrlandi

 Samfylkingin fordæmir aðgerðir Tyrkja gegn kúrdískum borgurum í Afrín í Norður Sýrlandi.

 Í síðustu viku voru liðin sjö ár síðan stríðið í Sýrlandi hófst án þess að friður sé í augsýn, en um hálf milljón manns hafa látist í átökunum.

 Þann 20. janúar hófu tyrkneskar hersveitir árásir gegn Kúrdum og tóku nú í síðustu viku yfir borgina Afrín í norðurhluta Sýrlands. Árásir NATO-ríkisins Tyrklands hafa neytt þúsundir á flótta og hundruð manna hafa látist.

 Samfylkingin fordæmir innrás Tyrkja í Afrín og þá glæpi sem þeir hafa framið gegn kúrdísku þjóðinni. Samfylkingin lýsir enn fremur yfir vonbrigðum með getuleysi alþjóðasamfélagsins til þess að vinna saman, fordæma aðgerðir Tyrkja og grípa til aðgerða til að koma á varanlegum friði á svæðinu.

Samfylkingin skorar á ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að taka opinbera afstöðu gegn innrásinni á alþjóðavettvangi, sér í lagi innan NATO, og þrýsta á bandalagsþjóðir að gera slíkt hið sama. Við hvetjum íslensk stjórnvöld til að halda uppi harðri gagnrýni vegna ofsókna og mannréttindabrota gegn Kúrdum og taka jafnframt til eindreginna varna fyrir þá á alþjóðavettvangi.

 Samfylkingin minnir auk þess á að Íslandi ber, líkt og öðrum ríkjum í Evrópu, að axla ábyrgð og taka við umsækjendum um alþjóðlega vernd.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Gaf Díegó í jólagjöf

Nýlegt

Gaf Díegó í jólagjöf
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Óli Björn getur ekki horfst í augu við raunveruleikann – vinstristjórnarsamstarfið er dýrt og sorglegt

Orðið á götunni: Óli Björn getur ekki horfst í augu við raunveruleikann – vinstristjórnarsamstarfið er dýrt og sorglegt
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Stórtíðindi í nýrri könnun: Viðreisn spólar fram úr Samfylkingu – Framsókn á útleið?

Stórtíðindi í nýrri könnun: Viðreisn spólar fram úr Samfylkingu – Framsókn á útleið?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Sigurður Ingi hjólar af krafti í Sjálfstæðisflokkinn – „Þá hefðum við átt að segja nú er nóg komið“

Sigurður Ingi hjólar af krafti í Sjálfstæðisflokkinn – „Þá hefðum við átt að segja nú er nóg komið“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Arnar Þór Jónsson: Íslensk fyrirtæki og heimili eiga ekki lengur skjól í Valhöll – það er löngu búið að henda þeim þaðan út

Arnar Þór Jónsson: Íslensk fyrirtæki og heimili eiga ekki lengur skjól í Valhöll – það er löngu búið að henda þeim þaðan út