Davíð Þorláksson, lögfræðingur og Sjálfstæðismaður, skrifar reglulega pistla í Fréttablaðið. Í dag skrifar hann um Píratann Björn Leví Gunnarsson, en fyrirspurnir hans á Alþingi, 77 talsins, hafa vakið mikla athygli.
Davíð skrifar:
„Þingmenn eru mjög misforvitnir. Svo mjög að einn þeirra, Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur lagt fram 77 fyrirspurnir til ráðherra á þessu þingi, sem eru fleiri fyrirspurnir en 41 annar þingmaður hefur lagt fram samanlagt. Þetta eru meira en tvær fyrirspurnir á hvern dag sem þingfundur hefur verið haldinn á þessu þingi. Allir hinir þingmennirnir hafa lagt fram 4,2 fyrirspurnir að meðaltali. Sá sem næstmest hefur spurt hefur lagt fram 18 fyrirspurnir.“
Davíð viðurkennir að sumar fyrirspurnir séu mikilvægar, en…:
„Sumar eru mikilvægar, eins og spurning um aksturskostnað þingmanna. Aðrar eru skrýtnar, eins og spurning um hversu margir atkvæðakassar hafi brotnað í hverjum alþingiskosningum síðan 2013. Enn aðrar hefði verið hægt að gúggla á nokkrum sekúndum, eins og spurninguna um hvert opinbert nafn sveitarfélagsins þar sem höfuðborg Íslands er staðsett sé. Oft eru margar spurningar í hverri fyrirspurn. Til dæmis er fyrirspurn um rekstur háskóla í 11 liðum og hver liður getur kallað á margþætt svar eins og spurning um hver fjöldi nýnema og fjöldi útskrifaðra nemenda á hverri önn í hverri deild í hverjum háskóla fyrir sig sl. 10 ár hafi verið.“
Þá segir Davíð aðfarir Björns vera skrípaleik:
„Réttur þingmanna til að fá svar við fyrirspurnum sínum til ráðherra er mikilvægur hluti af aðhaldshlutverki þingsins gagnvart ríkisstjórn og stjórnsýslunni. Svona skrípaleikur gengisfellir hins vegar þetta hlutverk og bakar mikla vinnu og kostnað. Níu þingmenn hafa ekki séð ástæðu til að spyrja að neinu á yfirstandandi þingi. Það væri áhugavert ef einhver þeirra myndi spyrja hver kostnaður skattgreiðenda hefur verið við að svara öllum þessum fyrirspurnum Píratans.“