Helstu niðurstöður ársuppgjörs RÚV eru þær að regluleg starfsemi er RÚV áfram hallalaus og skilar
rekstrarafgangi upp á 201 mkr. Að auki skilar endanlegt uppgjör á söluhagnaði vegna sölu á
byggingarrétti viðbótarhagnaði á árinu upp á 174 mkr og því er rekstrarafkoma ársins í heild
jákvæð um 321 m.kr fyrir skatta.
Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri:
„Jákvæð niðurstaða ársins 2017 er sérstaklega ánægjuleg vegna þess að þetta er þriðja
rekstrarárið í röð þar sem RÚV skilar hallalausum rekstri eftir umbótaferli,
skipulagsbreytingar og markvisst hagræðingastarf frá árinu 2014 í kjölfar lækkunar
útvarpsgjalds. Sala á byggingarrétti skilar mestu skuldalækkun í sögu félagsins og er
rekstarafkoma ársins nýtt í sama tilgangi. Þennan árangur þökkum við öflugu starfsfólki
RÚV og samstarfsaðilum. Árangurinn hefur náðst þrátt fyrir krefjandi rekstraraðstæður.
Þjónustusamningur RÚV og mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem gildir til ársloka
2019 hefur skapað nauðsynlegan fyrirsjáanleika varðandi tekjur og skyldur RÚV til næstu
ára. Ný staða RÚV hefur gert okkur kleift að bæta þjónustuna og sinna því leiðandi
hlutverki sem RÚV ber í íslensku fjölmiðla- og menningarumhverfi. Nýrri stefnu og
skipulagi er ætlað að festa jákvæðar breytingar í sessi og grundvallar getu okkar til að
takast á við nýjar krefjandi áskoranir í síbreytilegu fjölmiðlalandslagi þar sem öflugur
almannaþjónustumiðill er mikilvægari en nokkru sinni fyrr.“
Rekstrargjöld án afskrifta voru 5.643 m.kr. en 5.414 árið 2016. Afskriftir voru 316 m.kr.
samanborið við 308 m.kr. 2016. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 292 m.kr. en 221 m.kr. árið
áður og munar þar mestu um gengisþróun krónunnar.
Heildareignir félagsins í lok árs 2017 námu 8.379 m.kr., eigið fé var 2.190 m.kr. og eiginfjárhlutfall
26,1% en var 23,8% í lok árs 2016. Eiginfjárhlutfall hefur hækkað mikið að undanförnu en það var
5,5% í lok rekstrarársins 2013-2014.
Hagnaður af sölu byggingarréttar var að mestu leyti færður í ársreikning vegna ársins 2016. Tekjur
af þessari sölu byggjast á endanlegu byggingamagni á lóðinni og lá það fyrir í byrjun árs 2018.
Heildarsöluverð er 1.966 m.kr., sem er umtalsvert meira en varlegar áætlanir RÚV höfðu gert ráð
fyrir í upphafi. Markmið RÚV með sölu byggingarréttarins var að greiða niður skuldir félagsins og
hefur það gengið eftir og leitt til mestu skuldalækkunar í sögu félagsins. Félagið hefur haldið áfram
niðurgreiðslu skulda eftir að lokagreiðslur bárust í ársbyrjun 2018 og hefur einnig ráðstafað
hagnaði ársins af reglulegri starfsemi með sama hætti. Eftir sem áður er félagið mikið skuldsett.
Stöðugildi voru að meðaltali 260 á árinu en fjöldi þeirra hefur verið svipaður frá árinu 2015 eftir
mikla fækkun á misserunum þar á undan. Útvarpsgjald var lækkað á nokkurra ára tímabili ásamt
því að möguleikar á öflun tekna í gegnum sölu auglýsinga og kostana var takmarkaður.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður stjórnar RÚV:
„Ársreikningur RÚV ohf. fyrir árið 2017 liggur fyrir. Þriðja árið í röð skilar RÚV ohf
hallalausum rekstri sem er fagnaðarefni. Þessum árangri hefur útvarpsstjóri ásamt
samstarfsfólki sínu náð með skipulagsbreytingum og markvissu hagræðingarstarfi. Nýrri
stefnu og skipulagi er ætlað að festa í sessi þessar jákvæðu breytingar og skapa svigrúm
fyrir öflugri dagskrá og skarpari almannaþjónustu. Eigið fé og eiginfjárhlutfall RÚV fer
hækkandi og skuldir lækka, þótt enn sé RÚV ohf mjög skuldsett. Niðurstöður ársreiknings
RUV ohf sýna að vel er haldið á málum.“
– Áframhaldandi hallalaus rekstur hjá RÚV
– Regluleg starfsemi skilar rekstrarafgangi upp á 201 m.kr.
– Hagnaður vegna endanlegs uppgjörs á sölu á byggingarrétti nam 174 m.kr sem leiðir
til þess að heildarhagnaður ársins fyrir skatta nam 321 m.kr.
– Margvíslegar breytingar á skipulagi og hagræðing hafa stuðlað að áframhaldandi
jafnvægi í rekstri og skapað svigrúm fyrir öflugri dagskrá og skarpari almannaþjónustu
– Sala á byggingarrétti leiðir til mestu skuldalækkunar í sögu félagsins og hagnaður
ársins er nýttur í sama tilgangi.
– Félagið er enn mikið skuldsett, aðallega vegna uppgjörs á eldri
lífeyrisskuldbindingum.
– Eiginfjárhlutfall félagsins hefur batnað mikið á síðustu þremur árum og hækkar nú úr
23,8% í 26,1%