Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, hefur lagt fram fyrirspurn þess efnis til fjármálaráðherra Bjarna Benediktssonar, hver kostnaður við rekstur kjararáðs sé. Spyr hann um árlegan kostnað frá 2014-2017, greiðslur til hvers og eins í nefndinni, sundurliðað á hvern ráðsmann eftir árum, hvernig þóknun þeirra sé ákveðin, hver sé aðkoma ráðuneytisins um launin, og hver launakostnaður kjararáðs sé, utan þóknunar til kjararáðsmanna og hvaða stöðugildi séu þar að baki.
Fréttablaðið hefur einnig sóst eftir þessum upplýsingum, en ekki fengið.
Starfshópur sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skipaði, komst að þeirri niðurstöðu að leggja ætti niður kjararáð, þar sem ákvarðanir þess um kjör æðstu stjórnenda ríkisins hafi farið langt fram úr viðmiðunum rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda frá 2015.
Þá sóttist kjararáð eftir því að hækka eigin laun afturvirkt, með vísun í hækkun á launavísitölu Hagstofunnar. Sú hækkun vísitölunnar mátti, meðal annars, rekja til ákvarðana kjararáðs sjálfs, líkt og Kjarninn greindi frá.
Þáverandi fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannesson, fór að skellihlæja yfir bón kjararáðs um þessa launahækkun, en Bjarni Benediktsson, sem fékk bréfið í arf frá Benedikt frænda sínum, samþykkti launahækkunina, sem taka átti gildi frá 1. ágúst 2017.
Fimm manns skipa kjararáð auk fimm varamanna, sem skipaðir eru í fjögur ár í senn. Í ráðinu sitja Jónas Þór Guðmundsson, formaður kosinn af Alþingi, Óskar Bergsson, varaformaður, kosinn af Alþingi, Svanhildur Kaaber, kosin af Alþingi, Jakob R. Möller, skipaður af Hæstarétti, og Hulda Árnadóttir, skipuð af fjármála- og efnahagsráðherra.