Samkvæmt nýrri skýrslu Nordregio sem unnin er fyrir hönd Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar, kemur fram að innflytjendur geti verið lausn á skorti mannafla á vinnumarkaði sem og liður í að hægja á öldrun íbúa Norðurlandanna. Þsesi niðurstaða fékkst við greiningu á tölfræðigögnum, en tölfræðilegar upplýsingar um fólksflutninga hafa verið áberandi og um leið viðkvæmar, bæði pólitískt og efnahagslega.
Í framhaldi af útgáfu skýrslunnar State of the Nordic Region 2018 er nú komin út sérstök skýrsla þar sem fjallað er um fólksflutninga og aðlögun nýaðfluttra á Norðurlöndunum.
Fólksflutningar og skipulag kringum þá eru meðal flóknustu verkefna í nútímasamfélagi. Í nýrri skýrslu frá Nordregio eru lagðar fram nýjar og samræmdar talnaupplýsingar um þetta mjög svo umrædda málefni með það fyrir augum að unnt verði að bera þær saman í tíma og milli svæða og sveitarfélaga alls staðar á Norðurlöndum.
„Til þess að stuðla að góðri aðlögun verðum við að byrja á því að greina mikið magn nákvæmra talnagagna. Aðeins með gegnum slík talnagögn er hægt að hámarka ávinning og lágmarka kostnað vegna fólksflutninga, bæði út frá efnahagslegum sjónarmiðum og mannréttindasjónarmiðum,“
segir Kjell Nilsson, framkvæmdastjóri Nordregio í formála skýrslunnar.
Innflytjendur geta verið lausnin á skorti á mannafla á vinnumarkaði og þeir geta einnig snúið við þeirri þróun að íbúar Norðurlandanna verði stöðugt eldri.
Aðlögun nýaðfluttra að vinnumarkaði hefur sýnt sig að vera mikil áskorun í mörgum tilvikum og meðan velferðarkerfið er hugsanlega háð aðflutningi fólks til lengri tíma litið þá hefur aðflutningur fólks leitt til aukins kostnaðar til skamms tíma.
„Skilvirk aðlögunarstefna mun ekki aðeins bæta líf fólks heldur styrkja norræna velferðarkerfið til lengri tíma litið,“
fullyrðir Ewa Persson Göransson, framkvæmdastjóri Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar sem er meðútgefandi skýrslunnar og er það liður í þeirri starfsemi stofnunarinnar að vera miðstöð upplýsingamiðlunar verkefnisins Nordic Integration Project sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina.
Skýrslan skiptist í þrjá hluta:
Í kaflanum „Coming to the Nordic Region“ eru kynnt gögn sem sýna hverjir innflytjendur til Norðurlanda hafa verið undanfarin ár. Fjöldi innflytjenda og flæði, mismunandi birtingarmyndir fólksflutninga og fylgdarlaus börn.
Í kaflanum „Making the Nordic Region home“ er sjónum beint að því hvað gerist eftir að innflytjendur eru orðnir hluti af norrænum almenningi. Þá er heilsufari innflytjenda einnig lýst og greint frá skilyrðum sem innflytjendur þurfa að uppfylla til þess að geta fengið ríkisborgararétt.
Í kaflanum „Labour market integration“ er skoðað hvernig innflytjendum farnast á norrænum vinnumarkaði og sérstök áhersla lögð á konur í hópi innflytjenda og hlut fólks af erlendum uppruna í menningarstarfi sem nýtur opinberra styrkja.
Skýrslan The state of the Nordic Region 2018 – Immigration and integration er unnin af Nordregio fyrir hönd Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar en báðar þessar stofnanir eru stofnaðar af Norrænu ráðherranefndinni. Skýrslan er liður í verkefninu Nordic Integration Project.
„Þessi skýrsla er gott dæmi um það hvernig norrænar stofnanir eins og Nordregio og Norræna verlferðamiðstöðin geta seðjað hið stöðuga hungur í þekkingusem er fyrir hendi á Norðurlöndunum. Innflutningur fólks og aðlögun er heitt umræðuefni og við þurfum að gera betur á þessu sviði. Skýrslan er framlag til þess að hjálpa yfirvöldum sveitarfélaga, svæða og á landsvísu að taka upplýstar ákvarðanir um aðlögun. Hún opnar leið til að bera saman og læra af stöðunni á mismunandi svæðum á Norðurlöndum,“ segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.