Listi Framsóknarflokksins í Ísafjarðarbæ var samþykktur einróma í gær á fjölmennum félagsfundi. Listinn er skipaður fjölbreyttum hópi fólks sem kemur allsstaðar af úr víðfeðmu sveitarfélaginu. Áhersla var lögð á að fá ungt og hæfileikaríkt fólk í bland við reynslumeiri frambjóðendur með fjölbreyttan bakgrunn. Listann skipa 8 konur og 10 karlar en jafnt kynjahlutfall er í efstu 16 sætunum, að því er fram kemur í tilkynningu.
Oddviti verður áfram Marzellíus Sveinbjörnsson umsjónarmaður fasteigna Ísafjarðarbæjar en hann hefur verið bæjarfulltrúi Framsóknar undanfarin fjögur ár og varabæjarfulltrúi þar á undan. Í öðru sæti er Guðríður Matt Þorbjörnsdóttir leiðbeinandi og í þriðja sæti er Kristján Þór Kristjánsson svæðisstjóri CCEP. Elísabet Samúelsdóttir þjónustustjóri hjá Landsbankanum er í fjórða sætinu og Anton Helgi Guðjónsson sjávarútvegsfræðingur skipar fimmta sætið.
Mikil ánægja var á fundinum með listann og var strax byrjað að leggja línur fyrir þau málefni sem verða sett á oddinn fyrir næsta kjörtímabil.
„Ég er gífurlega ánægður með þennan fjölbreytta og vel skipaða lista. Nú munum við bretta upp hendur við að móta áherslur fyrir næstu fjögur ár. Ég fer bjartsýnn inní baráttuna og vongóður um góða niðurstöðu,“
segir Marzellíus Sveinbjörnsson oddviti Framsóknar í Ísafjarðarbæ.
Framsókn fékk 15,56% atkvæða í síðustu kosningum og einn fulltrúa kjörin en einungis vantaði 41 atkvæði í næsta mann inn.