Rétt í þessu samþykkti Alþingi frumvarp Viðreisnar um breytingu á kynferðiskafla almennra hegningarlaga. Jón Steindór Valdimarsson þingmaður Viðreisnar var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins og er markmið þess að setja samþykki í forgrunn við skilgreiningu á nauðgun. Samkvæmt nýju lögunum eru öll tvímæli tekin af um að samþykki sé forsenda kynmaka:
Núgildandi ákvæði
194. gr
Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti. Það telst einnig nauðgun og varðar sömu refsingu og mælt er fyrir um í 1. mgr. að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans.
Eftir breytingar:
194 gr.
Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Samþykki telst liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja. Samþykki telst ekki liggja fyrir ef beitt er ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.
Það telst einnig nauðgun og varðar sömu refsingu og mælt er fyrir um í 1. mgr. að beita blekkingum eða notfæra sér villu viðkomandi um aðstæður eða að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans.
Í umsögn Ragnhildar Bragadóttur, prófessors í refsirétti við Háskóla Íslands, um frumvarpið sagði meðal annars að lögfesting skilgreiningar nauðgunar út frá samþykki sé eðlilegur þáttur í þróun réttarins og þar sé leitast við að tryggja að lögin séu í samræmi við réttarvitund almennings. Þá kom fram í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands að um nauðsynlega breytingu hafi verið að ræða til samræmis við Istanbulsamninginn og dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu.
Jón Steindór segir að kynferðislegt ofbeldi og nauðganir séu samfélagslegt mein sem þurfi að sporna við eins og nokkur kostur er með fræðslu, viðhorfsbreytingu og nauðsynlegum lagabreytingum. Frumvarpið sé viðleitni í þá átt. Það feli í sér að horfið verði frá því að skilgreina nauðgun út frá verknaðaraðferð og að þess í stað verði samþykki sett í forgrunn. Þannig er það skortur á samþykki til samræðis eða annarra kynferðismaka sem skilgreinir nauðgunina.
Í ræðu sinni við flutning frumvarpsins sagði Jón Steindór enn fremur að frumvarpið sé liður í því að breyta viðhorfum sem feðraveldi fortíðar hefur skapað og eru ennríkjandi eða eimir sterkt af á ýmsum stöðum. Með frumvarpinu sé horfið frá þeim karllægu sjónarmiðum sem endurspeglast víða að við tilteknar aðstæður eigi karlmaður næstum rétt á kynlífi með konu. Þá eru þau viðhorf lífseig að þegar fólk er í sambandi, hvort sem það er innan hjónabands eða utan, ryðji það með einhverjum hætti úr vegi kynfrelsi og sjálfsákvörðunarrétti þegar kynlíf á í hlut.
Þá sagði hann einnig:
„Það er skylda okkar þingmanna að lögin séu sanngjörn og sporni gegn úreltum viðhorfum. Það á svo sannarlega við í þessu efni og til þess er þetta frumvarp lagt fram.“
Í greinargerð um frumvarpið segir:
Frumvarp þetta var lagt fram á 146. löggjafarþingi (419. mál) og 147. löggjafarþingi (10. mál) en hlaut ekki afgreiðslu. Með frumvarpinu er lagt til að 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga verði breytt á þann veg að samþykki verði í forgrunni skilgreiningar á nauðgun. Þannig verði horfið frá megináherslu á verknaðaraðferð við nauðgun. Þess í stað verði aukin áhersla lögð á kynfrelsi og sjálfsákvörðunarrétt einstaklings með því að skilgreina nauðgun út frá því hvort samþykki hafi verið fyrir hendi eða ekki. Lagt er til að gerð verði krafa um að samþykki fyrir samræði eða öðrum kynferðismökum hafi legið fyrir þannig að samræði og önnur kynferðismök án samþykkis manns muni varða refsingu. Samþykki þarf að hafa verið tjáð af frjálsum vilja. Ekki er talin ástæða til að leggja til breytingu á 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.
Frumvörp þessa efnis hafa áður verið lögð fram á Alþingi, m.a. á 141. löggjafarþingi (325. mál) auk þess sem álitaefni þetta kom til umræðu við setningu laga nr. 61/2007, um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (20. mál á 133. löggjafarþingi). Í frumvarpi þessu er þó að finna nýja útfærslu og orðalag slíkrar samþykkisreglu í ljósi kröfu um skýrleika refsiheimilda skv. 69. gr. stjórnarskrárinnar. Eðlilegt þykir í ljósi aukinnar áherslu á kynfrelsi að nauðgun verði skilgreind út frá því hvort samþykki hafi verið fyrir hendi eða ekki, fremur en eingöngu út frá því hvaða verknaðaraðferðum var beitt til að ná fram nauðgun.