Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, segist í pistli sínum „Já, skattgreiðandi“ í Þjóðmálum, vilja láta endurskoða tvö átaksverkefni sem ríkið stofnaði til fyrir mörgum árum, en séu enn í gangi, löngu eftir að markmiðum þeirra sé náð. Hún virðist áfellast embættismannakerfið, en sjálf segist hún finna fyrir „tregðu“ í sínu starfi:
„Ég er ekki að fella neina palladóma hér heldur eingöngu að vekja athygli á því að rætur þessarar sérkennilegu stöðu liggja í tregðu hins opinbera til að setja punkt aftan við tímabundin átaksverkefni. Og ég skil vel af hverju sú tregða stafar. Ég finn fyrir henni sjálf,“
segir Þórdís í miðjum pistlinum.
Tregðan sem Þórdís talar um má skilja sem svo að sé embættismannakerfið á Íslandi, en í inngangi pistilsins segir Þórdís:
„Meginstefið í bresku þáttunum Já, ráðherra er að embættismenn eru allir af vilja gerðir til að aðstoða ráðherrann og gera honum til hæfis, en þegar á hólminn er komið finna þeir útsmogna leið til að koma í veg fyrir áform hans verði að veruleika. Heiti þáttanna er þannig kaldhæðni. „já“ þýðir í raun „nei.“
Verkefnin sem Þórdís vill láta endurskoða eru annarsvegar „Átak til atvinnusköpunar“ og „Inspired by Iceland“.
Tilurð verkefnisins Átak til atvinnusköpunar má rekja til gamals kosningaloforðs Framsóknarflokksins frá árinu 1995, þegar atvinnuleysi var raunverulegt vandamál. Þá lofaði Finnur Ingólfsson að skapa 12 þúsund ný störf til aldamóta, fengi hann umboð þeirra til þess. Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn mynduðu síðan ríkisstjórn og verkefnið Átak til atvinnusköpunar var stofnað.
Átakið er enn í fullum gangi, 23 árum síðar og atvinnuleysi með allra lægsta móti síðustu ár.
Í pistli Þórdísar um átakið segir:
„Á vegum átaksins var tugum milljóna króna varið á hverju ári til að styrkja ýmis nýsköpunarverkefni og atvinnuskapandi framtak. Aðstoðarmaður ráðherrans varð stjórnarformaður verkefnisins. Tíminn leið og aldamótaárið 2000 rann upp. Störfum fjölgaði um 14 þúsund, eða töluvert umfram þau 12 þúsund sem markið hafði verið sett á. (Látum liggja milli hluta hverju eða hverjum það var að þakka.) Árið 2016 hafði störfum fjölgað um 34 þúsund til viðbótar. Alls hafa því orðið til um það bil 48 þúsund störf frá því að „Átaki til atvinnusköpunar“ var hleypt af stokkunum. Atvinnuleysi er hverfandi eins og kunnugt er. En þrátt fyrir það stendur átakið enn yfir. Á vegum þess er árlega úthlutað tæplega 70 milljónum króna til ýmissa verkefna.“
Þá nefnir Þórdís einnig átakið „Inspired by Iceland“ sem átti að koma í veg fyrir hrun í ferðamannaþjónustu í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli. Það hafi reynst vel og ákveðið hafi verið að veita átakinu framhaldslíf með breyttum áherslum:
„Sú ákvörðun var tekin í tengslum við gerð kjarasamninga og var þannig að einhverju leyti hluti af samkomulagi á vinnumarkaði,“
segir Þórdís og bætir við:
„Haustið 2011 samdi ríkið þannig til þriggja ára um 330 milljón króna árlegt framlag í markaðsstarf ferðaþjónustunnar, og því alls 900 milljónir, gegn jafnháu framlagi fyrirtækja og sveitarfélaga. Íslandsstofu var falin framkvæmd samningsins og var þar með komin með tvo samninga um markaðsstarf ferðaþjónustu; þennan og og ofangreindan samning um hið hefðbundna framlag. Báðir gilda enn í dag þótt annar eigi sannarlega rætur í tímabundnu átaki.“
Þórdís segir síðan að ljóst þyki að samningarnir skarist að verulegu leyti og ástæða sé til að endurmeta hversu skynsamlegt sé að ríkið sé með tvo samninga um áþekka hluti.