Andrúmsloftið innan VG er spennuþrungið þessa dagana. Frá því er greint í Fréttablaðinu í dag að þingflokksformaður Vinstri grænna, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hafi kallað inn varamann fyrir Rósu Björk Brynjólfsdóttur þar sem Rósa væri erlendis. Hinsvegar hafi Rósa afturkallað varamanninn og fundist Bjarkey taka fram fyrir hendurnar á sér. Bjarkey segir þetta mistök af sinni hálfu:
„Já, ég reyndi að gera það, ég hélt að það væri samkomulag um það því hún væri úti á vegum þingsins. En hún afturkallaði það. Hún var ósátt og fannst ég taka fram fyrir hendurnar á sér sem er að mörgu leyti rétt. Ég taldi hins vegar bara að það væri samkomulag um annað. Það voru kannski mistök af minni hálfu. Andrés er á eigin vegum þannig að hann yrði launalaus ef hann tæki inn varamann. Rósa kaus einhverra hluta vegna að taka ekki inn varamann þótt hún væri erlendis á vegum þingsins og á launum á meðan. Ég óskaði eftir því að þau bæði tækju inn varamann á þessum tíma,“
sagði Bjarkey við Fréttablaðið. Hún segir samskiptin innan VG erfið:
„Það er óhætt að segja að samskiptin séu erfið innan þingflokksins. Það er ekkert sérstaklega við mig að sakast frekar en aðra en þau eru svolítið erfið og hafa verið það og það er ekkert nýtt. Það er óhætt að segja að frá upphafi hefur þetta verið pínulítið þyngra en við höfum átt að venjast fram til þessa,“
sagði Bjarkey í Fréttablaðinu.
Rósa vildi lítið tjá sig um málið, en sagði þó að það væri hennar ákvörðun hvort kallaður væri inn varamaður í hennar stað, ekki þingflokksformannsins:
„Það er undir hverjum og einum þingmanni komið að kalla inn varaþingmann eða ekki. Ég ákvað að kalla ekki inn varaþingmann í þetta sinn þar sem nefndarvika er í þinginu og ekki nein risavaxin mál í mínum nefndum,“
sagði Rósa, sem er í París á fundi framkvæmdastjórnar og stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins
Þau Rósa og Andrés Ingi Jónsson studdu ekki stjórnarsamstarfið en studdu vantrauststillögu á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra, sem leitt hefur til lævi blandins andrúmslofts innan þingflokks VG.