Úttekt Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar á verkferlum og reglum er varða tilkynningar og ábendingar sem berast til Barnaverndar Reykjavíkur var lögð fram á fundum borgarráðs og velferðarráðs í dag. Sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, Regína Ásvaldsdóttir, óskaði eftir úttektinni í framhaldi af máli stuðningsfulltrúa á skammtímaheimili við Hraunberg sem grunaður er um kynferðisbrot gegn börnum.
Í niðurstöðum skýrslunnar segir að verkferlar hjá Barnavernd og velferðarsviði Reykjavíkurborgar, um tilkynningar og ábendingar vegna barnaverndarmála, séu í samræmi við lög en að mistök hafi átt sér stað þegar ekki var brugðist við tilkynningu um meintan kynferðisbrotamann árið 2008. Þá eru í úttektinni tilteknar ýmsar úrbætur sem gera megi, umfram lagaskyldu, til að bæta öryggi viðkvæmustu þjónustuþega borgarinnar.
Velferðarsvið tekur undir niðurstöður Innri endurskoðunar borgarinnar og hefur sett saman aðgerðaáætlun í tíu liðum sem stuðla mun að auknu öryggi barna og bæta ráðningaferli innan sviðsins og Barnaverndar. Sérstakur verkefnisstjóri verður ráðinn til að hafa umsjón með innleiðingu þeirra verkefna sem ráðast þarf í. Á fundi velferðarráðs í dag var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum að vísa til borgarráðs tillögu um aukafjárveitingu upp á 39,3 milljónir kr. vegna aðgerðaáætlunarinnar fyrir árið 2018 eða 51,5 milljónir kr. á ársgrundvelli.
Í aðgerðaáætluninni eru eftirfarandi aðgerðir lagðar fram:
—
Elín Oddný Sigurðardóttir, formaður velferðarráðs: „Okkur ber fyrst og fremst að standa með þolendum og aðstandendum þeirra. Mikilvægt er að á alla sé hlustað og að þolendur séu teknir trúanlegir í hvívetna. Við tökum niðurstöðu Innri endurskoðunar mjög alvarlega og munum strax setja fullan kraft í úrbætur í málaflokknum. Þó svo að úttektin sýni að núgildandi ferlar hafi verið í samræmi við barnaverndarlög, þá getur borgin gengið lengra en lög kveða á um. Aðgerðaáætlun sem velferðarráð hefur nú samþykkt staðfestir vilja borgarinnar til að sinna þessum verkefnum af festu og fagmennsku. Við ætlum að styrkja starfsemi sviðsins svo unnt sé að gera umbætur á ráðningaferlum og halda betur utan um starfsmannahópinn sem sinnir mikilvægri og oft á tíðum viðkvæmri þjónustu við skjólstæðinga velferðarsviðs og Barnaverndar. Auk úttektar Innri endurskoðunar sem unnin var að beiðni velferðarsviðs hefur verið óskað eftir því að Innri endurskoðun veiti ráðgjöf um framkvæmd áhættugreiningar á þeirri starfsemi Barnaverndar og velferðarsviðs sem snýr að börnum, með sérstaka áherslu á sólarhringsúrræði. Sú vinna hefst strax.“
—
Úttekt Innri endurskoðunar: https://reykjavik.is/sites/default/files/ymis_skjol/skjol_frettir/ie18020005_barnavernd_uttekt_14.3.2018.pdf
Samantekt Innri endurskoðunar: https://reykjavik.is/sites/default/files/ymis_skjol/skjol_frettir/ie1802005_samantekt_14.03.2018.pdf
Aðgerðaáætlun velferðarsviðs: https://reykjavik.is/sites/default/files/ymis_skjol/skjol_frettir/adgerdaaaetlun_br_vel.pdf