Icelandair Group og Microsoft hafa gert með sér samning til þriggja ára. Markmið samningsins er einna helst að auka framleiðni starfsmanna Icelandair sem og að tryggja hagkvæmni og öryggi í rekstri upplýsingatæknikerfa hjá félaginu. Samningurinn nær til um 5.000 starfsmanna Icelandair Group og er talinn vera stærsti samningur sinnar tegundar hér á landi, að því er kemur fram í tilkynningu.
Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála hjá Icelandair:
„Það er ánægjulegt fyrir Icelandair Group að gera samning við eitt stærsta tæknifyrirtæki í heimi. Samningurinn fellur vel að stefnu félagsins og við hjá Icelandair Group erum sannfærð um að Microsoft 365 hugbúnaðurinn sé mjög vel til þess fallinn að tryggja aukið öryggi og hagkvæmni í okkar rekstri. Það er einnig mikill kostur að Microsoft 365 býður starfsfólki upp á árangursríkt vinnuumhverfi þar sem fyllsta öryggis er gætt.“
Heimir Fannar Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi:
„Við erum mjög ánægð með það traust sem Icelandair Group sýnir Microsoft með þessu samstarfi. Icelandair Group er eitt stærsta fyrirtæki á Íslandi og þurfa fyrirtæki af þessari stærðargráðu að huga sérstaklega að persónuverndar- og öryggismálum og nota til þess besta og öruggasta hugbúnað sem völ er á. Í hinum síbreytilega stafræna heimi þurfa fyrirtæki, stór sem smá, ávallt að vera í stakk búin að mæta auknum kröfum og nýjum áherslum. Samningurinn mun auðvelda Icelandair Group að takast á við þessar áskoranir.“