fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Eyjan

Dauði Hauks og hinir vandræðalegu bandamenn okkar í Tyrklandi

Egill Helgason
Þriðjudaginn 13. mars 2018 11:42

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er athyglisvert að fylgjast með framvindu máls Hauks Hilmarssonar sem féll í stríðsátökum í Sýrlandi, líklega í loftárás. Þetta er náttúrlega afar sorglegur atburður og eftirsjá eftir þessum glæsilega unga manni. Haukur virðist hafa verið þarna í slagtogi við gríska anarkista að berjast með sjálfstæðishreyfingu Kúrda á sjálfstjórnarsvæðinu í Sýrlandi – þangað hafa komið aktífístar og bardagamenn frá ýmsum löndum, fyrst til að berjast við hin hryllilegu öfgasamtök Daesh, en svo lenda þeir í því að Tyrkir, líkt og oft áður, hefja hernað gegn Kúrdunum. Tyrkir telja sig alltaf í fullum rétti til þess.

Og þá er uppi sú einkennilega staða að Tyrkir eru bandamenn vestrænna ríkja  í Nató – og þar á meðal Íslands. Í skjóli þess komast Tyrkir upp með ýmislegt. Þróunin til fasisma á valdaskeiði Erdogans hefur verið nokkuð eindregin, sérstaklega síðustu árin. Vegna gríðarlegs hernaðarlegs og landfræðilegs mikilvægis Tyrklands gæta vestrænar þjóðir þess að móðga þá helst ekki – Tyrkland er í lykilhlutverki á mörkum hins vestræna og íslamska heims og svo geta þeir líka stjórnað flóttamannastraumnum sem gerði allt vitlaust í Evrópu fyrir fáum misserum.

Fjölskylda Hauks heimtar að fá svör frá utanríkisráðuneytinu, eins og sjá má í þessari frétt, en Haukur Már Helgason gagnrýnir utanríkisráðuneytið fyrir seinagang í máli nafna síns Hauks í pistli á Facebook:

Það er galið að utanríkisráðherra sé fljótari að finna orð um það að Rússar reyni að ráða Rússa af dögum í London en að Íslendingur hafi 1) átt þátt í að ráða niðurlögum ISIS með erlendum her en 2) verið drepinn af bandalagsríki Íslands í ótilkvaddri árás, ríki sem 3) svarar engu um hvar líkið er niðurkomið. Og væri hver ein fréttanna meira en nóg tilefni til að bæði tala og aðhafast, óháð pólitík eða afstöðu. Að ríki hirði um það þegar annarra landa herir drepa ríkisborgara þess er lágmarkskrafa, núllpunktur. Ráðherra segir aðstandendum að líta aftur við á morgun. Það eru fyrstu ummæli nokkurs valdhafa um málið, viku eftir að fréttin barst. Reynið á morgun. Ísland, hvað ertu?

Nú er spurning hverju Tyrkir muni svara íslenskum stjórnvöldum, ef þá einhverju, þ.e. ef íslensk stjórnvöld yfirleitt spyrja. Núorðið gengur Erdoganstjórnin fram með fádæma hroka á alþjóðavettvangi. En svo er annar flötur á málinu, sem breytir varla miklu en er þó forvitnilegur.

Hann er sá að Haukur kann að hafa brotið íslensk lög með því að taka upp vopn gegn öðru Natóríki. Þarna ræðir um tíunda kafla almennra hegningarlaga, sjálfan landráðakaflann.

89. gr. Beri íslenskur ríkisborgari í ófriði vopn gegn íslenska ríkinu eða bandamönnum þess, þá varðar það fangelsi ekki skemur en 2 ár.
 Sömu refsingu skal hver sá sæta, sem í ófriði, eða þegar ófriður vofir yfir, veitir fjandmönnum íslenska ríkisins liðsinni í orði eða verki eða veikir viðnámsþrótt íslenska ríkisins eða bandamanna þess.

Svo segir í lagagreininni. Það getur svo verið spurning um lögsögu íslenska ríkisins, hvort hún nær allt austur til Sýrlands og Kúrdistan.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Klappir og ICR í samstarf

Klappir og ICR í samstarf
Eyjan
Fyrir 1 viku

Forstjórinn reynir að slá á ólguna innan Sýnar með bréfi til starfsmanna – „Engin umræða hefur átt sér stað í minni tíð um lokun fréttastofu Stöðvar 2“

Forstjórinn reynir að slá á ólguna innan Sýnar með bréfi til starfsmanna – „Engin umræða hefur átt sér stað í minni tíð um lokun fréttastofu Stöðvar 2“