Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra gerði grein fyrir erfiðum aðstæðum á bráðamóttöku Landspítala vegna mikils álags á fundi ríkisstjórnar síðastliðinn föstudag. Ráðherra leggur áherslu á að hratt verði unnið að verkefnum sem ákveðin hafa verið til að efla heilbrigðiskerfið og styrkja mönnun þess. Svandís vísar þar meðal annars til yfirlýsingar forsætis- fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra um heilbrigðiskerfið og mönnun þess í tengslum við kjarasamninga BHM nýlega.
Erfiðar aðstæður á Landspítala birtast einkum í því að mikill fjöldi sjúklinga leitar til sjúkrahússins á sama tíma og erfitt reynist að útskrifa þá sem lokið hafa meðferð. Um miðjan febrúar síðastliðinn var álagið sérstaklega mikið og var heilbrigðisráðherra upplýstur um alvarlega stöðu á bráðamóttöku. Ráðuneytið upplýsti Embætti landlæknis jafnframt um stöðuna. Þegar staðan var hvað erfiðust, aðfaranótt 13. febrúar, voru 63 sjúklingar á bráðamóttökunni þar sem rúmstæði eru fyrir 32 sjúklinga. Bið eftir læknisskoðun var allt að sex klukkustundir sem að mati sjúkrahússins er of langur tími til að ábyrgjast megi öryggi allra sjúklinga sem á móttökuna leita og skapi aukna hættu á alvarlegum atvikum.
Við þessar aðstæður hafa sjúklingar þurft að bíða í allt að fimm sólarhringa á bráðamóttöku eftir viðeigandi legurými á almennri deild. Vegna skorts á hjúkrunarfræðingum voru 35 rými lokuð á spítalanum og nýlega þurfti að loka tveimur gjörgæslurýmum af sömu ástæðum. Auk erfiðleika vegna skorts á hjúkrunarfræðingum hefur Landspítalinn bent á aukið álag vegna fjölgunar ferðamanna en á síðasta ári voru 17% legudaga á gjörgæslu vegna ferðamanna.
Fyrstu tvo mánuði ársins hefur komum á bráðamóttöku fjölgað um rúmlega 500 (4,6%), hærra hlutfall þeirra sem leita á bráðamóttöku þurfa að leggjast inn og þeir sem þurft hafa innlögn það sem af er ári hafa dvalið að jafnaði 16 – 17 klukkustundir á bráðadeild eftir að innlögn hefur verið ákveðin, á móti 13 – 14 klst. á sama tíma á síðasta ári. Ástæða tafa á innlögn á almenna deild er skortur á rýmum.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ljóst að vandi Landspítalans sé margþættur og það verði að nálgast lausnirnar á þeim grunni:
„Við þurfum að hraða vinnu við að fullmóta heilbrigðisstefnu fyrir allt landið, skilgreina hlutverk og verkaskiptingu innan kerfisins og hefja það víðtæka samstarf sem nauðsynlegt er til að efla nýliðun heilbrigðisstétta, líkt og fjallað er um yfirlýsingu okkar ráðherranna þriggja um heilbrigðiskerfið og mönnun þess“
segir ráðherra. Einnig sé uppbygging hjúkrunarrýma veigamikill þáttur í því að styrkja heilbrigðiskerfið og bæta þjónustu, ekki síst við aldraða sem ekki nægir sá stuðningur sem í boði er til að búa á eigin heimili.