fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Eyjan

Dómsdagskjaftæði, nettröll og karlar með Rússablæti

Egill Helgason
Sunnudaginn 11. mars 2018 10:07

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Koma breska bloggarans Vanessu Beeley til landsins veldur nokkru róti. Ögmundur Jónasson hefur uppi stór orð í garð fréttamanns Ríkisútvarpsins sem hann ekki nafngreinir. Ég er ekki hann, en hins vegar birti ég í gær samantekt um hversu óáreiðanlegur heimildarmaður Beeley þessi er. Frásagnir sem maður hefur heyrt af fundinum benda í sömu átt.

Það vekur nokkra athygli að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sótti þennan fund – það væri áhugavert að heyra hvað henni fannst um það sem þarna fór fram? En forsætisráðherra þarf auðvitað að gæta að því hvaða samkomur hún sækir. Hefur hún ekki ráðgjafa í utanríkismálum?

En það eru fleiri sem hafa tjáð sig um þessa uppákomu, þar á meðal er Þórunn Ólafsdóttir, sem hefur getið sér gott orð fyrir hjálparstarf meðal sýrlenskra flóttamanna. Gleymum því ekki að frásagnir þeirra af hörmungunum sem þeir flýja eru kannski mikilvægastar. Þórunn setti þessa færslu inn á Facebook:

Kæru vinir

Ég hef fengið töluvert af fyrirspurnum um þennan viðburð, hvort ég ætli að mæta og hvort þarna sé ekki á ferðinni fróðlegur viðburður um ástandið skelfilega í Sýrlandi.
Svarið er nei, ég ætla ekki að mæta.

Ég hef fylgst með stríðinu í Sýrlandi úr miklu návígi. Sennilega því mesta sem hægt er án þess að vera sjálf á staðnum. Sýrland er jú heimaland Kinans míns, og þó hann sjálfur sé í öruggu skjóli fyrir því sem gengur á heima fyrir þá á það ekki við um allt hans nánasta fólk. Daglega heyrir hann í vinum, ættingjum, nágrönnum og samferðafólki á Idlib-svæðinu. Í hver skipti sem Rússar og Sýrlandsher láta sprengjunum rigna yfir Idlib-hérað höldum við niðri í okkur andanum. Bróðir hans, mágkona og tæplega tveggja ára dóttir þeirra eiga sér oft fótum fjör að launa þegar árásirnar hefjast. Ég hef hlustað á þær gegnum símann og ég hef séð myndir af eyðileggingunni, sundursprengdum líkömum og örmagna fólki sem þráir það eitt að geta dregið andann í friði.

Síðustu árum hef ég varið í að styðja og aðstoða fólk sem hefur flúið þetta sama ástand. Fólk sem segir mér sögur af þeirra eigin raunveruleika. Ekki til að sannfæra mig um eitt né neitt, heldur til að fá rými til að tjá sig um aðstæður sínar, upplifanir og missi. Enn hef ég ekki hitt neinn sem talar vel um forseta landsins eða hans her.

Fréttir berast af efnavopnaárásum og linnulausu sprengjuregni stjórnarhersins. “Við erum bara að stöðva hryðjuverkamenn, ekkert að sjá hér” eru skilaboðin sem stjórnin sendir svo út í heiminn. Fórnarkostnaðurinn er fólk. Börn. Þjóð hans, hvort sem þeim líkar hann og valdníðsla hans eða ekki. Börnin sem hann slátrar eru jafn sýrlensk og þau sem eiga foreldra sem styðja hann.

Ég mun seint mæla nokkrum þeim manni bót sem stendur fyrir drápum og þjáningum almennings í Sýrlandi. Þar er enginn góði og vondi karlinn – eitt lið á móti öðru. Nei, þar berjast á annað hundrað hópar með ólík og óljós markmið. Uppreisnin sem hófst gegn kúgun yfirvalda er löngu orðin að hryllilega flóknu og óskiljanlegu ástandi sem enginn skilur almennilega. Allir hópar sem berjast gegn Assad og hans stjórn eru af honum skilgreindir uppreisnar- og hryðjuverkahópar. Hvort sem um ræðir vopnaða almenna borgara eða Isis.
Manninum mínum, friðar- og umbótasinnanum sem neitaði að ganga til liðs við herinn, stafar ógn af því einfaldlega að hafa fæðst í borg sem stjórnarherinn skilgreinir sem uppreisnarsvæði. Að vera það sem við myndum kalla stjórnarandstæðing heitir uppreisnarmaður í orðræðunni sem stjórn Assads, með fólk eins og Vanessu Beeley í fararbroddi, hefur tekist að tileinka umheiminum.
Það er auðvelt að hlaupa upp til handa og fóta og saka mig um að styðja allskonar villimennsku þegar ég segist hafa óbeit á stjórnarhernum og stríðsglæpum hans. Isis stunda jú meiri villimennsku, held ég kannski með þeim? Eða vígamönnum al-Qaeda sem eru að sögn þeirra sem styðja Assad, miklu verri morðingjar en hann?

Nei. Að sjálfsögðu styð ég ekki slíka hópa. En ég styð sýrlenskan almenning. Ég styð ekki stjórnina sem hefur murkað lífið úr eigin þjóð svo árum skiptir. Mér finnst þeirra dráp ekki minna alvarleg en þeirra hópa sem við upplifum sem “versta karlinn”. Flestir í þessu stríði hafa einmitt fallið fyrir hendi Assads og hans bandamanna. Langflestir.

Ég gæti skrifað mun meira um tilfinningarnar sem það vekur hjá mér að mætt sé til landsins kona sem ætlar að segja okkur að upplifanir og þjáning fólks sem fæddist ekki inni á núverandi yfirráðasvæðum stjórnarhersins séu uppspuni. Að líflína þess, Hvítu hjalmarnir, séu hryðjuverkamenn því þeir styðja (eðlilega) ekki Assad. Hún á fullan rétt á að tjá sig um sínar skoðanir á málinu, rétt eins og við öll. Það þýðir þó ekki að fólk eins og hún sé að gera nokkrum þeim sem verst hafa orðið undir í þessu stríði nokkurn greiða.

Nei, ég mun ekki kvitta upp á svona dómsdagskjaftæði til að sýna andúð mína á Bandaríkjunum og halda með Rússum, eins og allir “alvöru kommúnistar”. Því það er fyrst og fremst markmið þeirra sem eru á þessari línu. Vesturlönd gegn austrinu.

Það væri auðvitað glapræði að halda því fram að kapítalisminn spili ekkert hlutverk í þessu stríði. En að gera lítið úr upplifunum almennra borgara sem hafa orðið fórnarlömb eigin yfirvalda á versta mögulega hátt, til að samsæriskenningar áhugamannaklúbba um Rússland og kommúnisma gangi upp, það er svo ósmekklegt að ég næ varla utan um það.

Til að gera langa sögu stutta, þá ætla ég ekki að mæta á þennan fund. Ég þarf ekki að taka mér stöðu gegn sýrlenskum almenningi til þess að trúa því að Vesturlönd beri líka ríka ábyrgð á þjáningum Sýrlendinga, rétt eins og Rússland, Íran, Saudi Arabía og gott fólk, við sjálf. Vopnaflutningarnir, munið þið? Þetta veit flest skynsamt fólk. Það gerir samt stríðsglæpamanninn Assad ekki að öðru en því sem hann er.

Ég þarf ekki nettröll eins og þessa konu eða miðaldra karla með Rússablæti til að segja mér múkk um þetta stríð sem er alltof nálægt mér, alla daga.

Ef þið, kæru vinir, ætlið að mæta hef ég bara eitt að segja: ekki skilja gagnrýnu gleraugun eftir heima. Spyrjið spurninga. Krefjist svara. En ekki búast við að ganga þarna út sem handhafar sannleikans.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Klappir og ICR í samstarf

Klappir og ICR í samstarf
Eyjan
Fyrir 1 viku

Forstjórinn reynir að slá á ólguna innan Sýnar með bréfi til starfsmanna – „Engin umræða hefur átt sér stað í minni tíð um lokun fréttastofu Stöðvar 2“

Forstjórinn reynir að slá á ólguna innan Sýnar með bréfi til starfsmanna – „Engin umræða hefur átt sér stað í minni tíð um lokun fréttastofu Stöðvar 2“