fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Eyjan

Loftmengunin í Reykjavík er hneyksli – það þarf alvöru aðgerðir gegn henni

Egill Helgason
Laugardaginn 10. mars 2018 15:19

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er mikið talað um óhreinindi í Reykjavík. Einu sinni var farið í átak sem kallaðist Hrein torg – fögur borg. Þetta var á sjöunda áratugnum. Mönnum þótti Reykjavík vera fram úr hófi ruslaraleg – en ástandið batnaði talsvert við þetta. Ég var barn og þá var mikið brýnt fyrir manni að henda ekki rusli á víðavangi. Þá þótti nýmæli að hafa ruslatunnur á almannafæri, eins og má lesa í dálki Hannesar á Horninu í Alþýðublaðinu 1964.

 

 

Ef maður skoðar útganginn á borginni nú finnst manni stundum eins og þurfi að hefja þessa brýningu á nýjan leik. Það er til dæmis rosalegt að sjá plastglösin sem eru út um allt eftir gesti öldurhúsa. Búandi í miðborginni eru það þau sem mér finnst mestur ami að ásamt öllum umbúðunum undan skyndimat sem hér fjúka um. Það er líka ráðgáta hvaða skemmtun það er fyrir spreybrúsaliðið að útata aftur og aftur húsið þar sem Teresusystur stunda sína líknarstarfsemi meðal snauðustu þegna samfélagsins.

En þegar talað er um óþrifnað er loftmengunin auðvitað efst á baugi. Þar eru bílar náttúrlega helsti sökudólgurinn. Staðreyndin er auðvitað sú að alltof margir bílar eru í borginni. Til dæmis er bílakraðakið orðið slíkt í götunni þar sem ég bjó áður fyrr vestur í bæ að varla sést í byggðina lengur fyrir bílunum. Krakkar sem leika sér úti þurfa sífellt að skjótast á milli þeirra. Bílunum fjölgar stöðugt og eru nú fleiri en íbúar landsins.

Og eins og hefur margsinnis komið fram er svifrykið heilsufarsvá. Það veldur dauðsföllum. Það er skaðlegt fyrir þá sem glíma við sjúkdóma í öndunarfærum. Og í veðri eins og hefur verið undanfarið er ekki ráðlegt fyrir fólk að stunda útivist nema fjarri umferðargötum. Það er varað við því að börn séu á ferð. Þetta er í raun skammarlegt í landi sem hefur lengi stært sig af hreinleika og óspilltri náttúru.

Það þarf átak til að koma í veg fyrir þetta, í andanum hrein torg – fögur borg.

Borgarfulltrúinn Halldór Auðar Svansson skrifar pistil um svifryksmengunina, það er í raun hægt að taka undir hvert orð:

Ég verð að viðurkenna að ég skil frekar illa þann málflutning að svifryk eigi að minnka eingöngu með því að þrífa götur betur og binda rykið betur. Hann virðist þó frekar algengur.

Þetta er svona svipað og að ætla sér að leysa það vandamál heimilis að allt sé alltaf skítugt með því að mamman eigi bara að vera duglegri við að taka til eftir alla – svona í stað þess að skoða hvernig allir geta í sameiningu gengið betur um.

Kostnaðurinn við svona þrif fellur nefnilega á okkur öll, úr sameiginlegum sjóðum. Því hlýtur það að vera sameiginlegt hagsmunamál að draga líka úr því að skíturinn myndist eins og hægt er.

Hvaða reglur sem draga úr mengun getum við sett sem við getum verið almennt sammála um að eru skynsamlegar og sanngjarnar?

Hvernig getum við hannað okkar borgarumhverfi þannig að hönnunin styðji við umhverfisgæði og dragi úr mengun?

Hvernig getum við stutt við minna mengandi samgöngukosti?

Þetta eru spurningar sem enginn borgarbúi getur firrt sig ábyrgð á því að svara með því að benda bara á ‘borgina’ sem eigi að leggja í meiri kostnað við að þrífa upp eftir að skítur hefur myndast. Slíkur málflutningur þýðir í raun: „Ég vil að allir aðrir borgi fyrir að þrífa upp eftir mig.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Klappir og ICR í samstarf

Klappir og ICR í samstarf
Eyjan
Fyrir 1 viku

Forstjórinn reynir að slá á ólguna innan Sýnar með bréfi til starfsmanna – „Engin umræða hefur átt sér stað í minni tíð um lokun fréttastofu Stöðvar 2“

Forstjórinn reynir að slá á ólguna innan Sýnar með bréfi til starfsmanna – „Engin umræða hefur átt sér stað í minni tíð um lokun fréttastofu Stöðvar 2“