Samkvæmt könnun Fréttablaðsins og frettabladid.is á fylgi flokkanna fyrir komandi borgarstjórnarkosningar, munar litlu á þeim Eyþóri Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins og Degi B. Eggertssyni, oddvita Samfylkingarinnar. Flestir vilja sjá Dag áfram sem borgarstjóra, eða 19 prósent, en 16 prósent vilja sjá Eyþór í borgarstjórastólnum. Aðeins tvö prósent nefndu Líf Magneudóttur, oddvita VG og eitt prósent nefndi Vigdísi Hauksdóttur, Miðflokki. Jón Gnarr fékk einnig eitt prósent fylgi, en hann er þó ekki í framboði.
Af þeim sem afstöðu tóku, nefndu 44 prósent Dag sem borgarstjóra, 36 prósent vildu Eyþór og 4 prósent vildu Líf Magneudóttur.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur flokka, með 35,2 prósent fylgi. Næstur er Samfylkingin með 27,2 prósent. Vinstri grænir eru þriðji stærsti flokkurinn með 12 prósent fylgi, þá eru Píratar með 8,9 prósent, Miðflokkurinn með 6 prósent, Viðreisn með 4,2 prósent, og Framsókn með 3,4 prósent. Flokkur fólksins mælist með 1,9 prósent og Besti flokkurinn 0,7 prósent. Framsókn, Flokkur fólksins og besti flokkurinn ná ekki inn manni samkvæmt þessu.
Sjálfstæðisflokkurinn fengi níu menn, Samfylkingin sjö,Vinstri grænir þrjá, Píratar tvo, Viðreisn og Miðflokkur einn mann.
Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, segir athyglisvert að tvær blokkir séu komnar fram svo snemma, en annars sé of snemmt að spá í spilin:
„Það sem mér finnst athyglisverðast er að ef maður skiptir þessu upp í mögulega meirihluta þá birtast þessar tvær blokkir, rauð og blá, sem eru mjög jafnar miðað við það hversu langt er í kosningar. Það eiga nokkrir flokkar eftir að kynna sína lista og svo framvegis. Þannig að við erum ekki enn komin með þá mynd sem blasir við í upphafi kosningabaráttunnar.“
segir Eiríkur við Fréttablaðið.
Aðferðafræðin:
Hringt var í 1.322 manns með lögheimili í Reykjavík þar til náðist í 800 samkvæmt lagskiptu úrtaki dagana 26. og 27. febrúar. Svarhlutfallið var 60,5 prósent. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir aldri. Spurt var: Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til sveitarstjórnarkosninga í dag? Ef ekki fékkst svar var spurt: Hvaða flokk er líklegast að þú myndir kjósa? Ef ekki fékkst svar var spurt: Er líklegra að þú myndir kjósa Sjálfstæðisflokkinn, eða einhvern annan flokk? Alls tóku 63,4 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar. Þá voru 7 prósent sem sögðust ekki ætla að kjósa eða skila auðu, 5 prósent sögðust óákveðin og 25 prósent vildu ekki svara spurningunni.
(frettabladid.is)