Vigdís Hauksdóttir, fyrrum þingmaður Framsóknarflokksins, verður oddviti Miðflokksins í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar í maí. Þetta var opinberað í opnunarteiti skrifstofu flokksins á Suðurlandsbraut nú í kvöld.
Vigdís segir í samtali við Morgunblaðið að það sé verk að vinna í borginni og hún hafi ekki verið lengi að ákveða sig þegar þetta kom til, að verða borgarstjóraefni Miðflokksins:
„Það er mikill meðbyr með flokknum á höfuðborgarsvæðinu, ég hef fundið það síðastliðna mánuði. Við unnum auðvitað mikinn kosningasigur í Alþingiskosningunum og sá meðbyr hefur haldið. Ég var raunverulega bara að sinna því kalli að halda þessari sigurgöngu flokksins áfram,“
segir Vigdís við Morgunblaðið.
Vigdís var veislustjóri hjá Miðflokknum á kosningavöku Miðflokksins í október og hefur síðan verið orðuð við Miðflokkinn, en hún hefur verið afar náin formanninum Sigmundi Davíð síðan þau voru saman í Framsóknarflokknum.
Vigdís, sem var formaður fjárlaganefndar, hætti á þingi árið 2016.
Lokafrestur til að skila inn öðrum framboðum rennur út laugardaginn 17. febrúar klukkan 12. Efstu sex frambjóðendurnir verða svo kynntir til leiks þann 24. febrúar.