Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, er ekki sáttur við svör Dags. B. Eggertssonar borgarstjóra í Kastljósinu í gær, hvar hann ræddi borgarmálin við Eyþór Arnalds, borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins.
Styrmir segir svör Dags hafa verið óskýr þegar stjórnandi Kastljóssins, Einar Þorsteinsson, spurði hvort staðið hefði verið við loforð í húsnæðismálum:
„Borgarstjóri gaf upp tölu um íbúðir í hönnun. Það var auðvitað rétt hjá Eyþóri Arnalds að fólk býr ekki í íbúðum, sem eru í hönnun. Þetta var einföld spurning og embættismannakerfi borgarinnar hlýtur að hafa burði til að upplýsa borgarstjóra um raunverulegar tölur.“
Dagur sagði í viðtalinu að Sjálfstæðismenn hefðu viljað hætta að hugsa um þá sem minna hefðu milli handanna þegar félög á borð við Gamma og aðrir einkaaðilar hófu innreið sína á leigumarkaðinn. Eyþór svaraði því til, að það væri „hreinlega dónalegt“ að segja að Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki hjálpa þeim sem minna mættu sín.
Dagur nefndi þá að Samfylkingin hefði lofað að byggðar yrðu 2500 til 3000 íbúðir á þremur til fimm árum og nú þegar væru 2500 íbúðir í hönnun eða byggingu og útlit væri fyrir að að loforðið yrði efnt ári á undan áætlun.
Þá benti Eyþór á að fólk byggi ekki í íbúðum sem verið væri að hanna og að fáar íbúðir hefðu risið í stjórnartíð Dags.
Í lokin nefnir Styrmir vandann sem felst í því að oddviti flokksins í Reykjavík, Eyþór Arnalds, skuli setja sig á móti borgarlínunni, sem Sjálfstæðismenn í öðrum nágrannasveitafélögum aftur á móti styðja. Segir hann þetta veikleika og spyr hvernig flokkurinn ætli að takast á við þann veikleika.