Metþátttaka var í rafrænum íbúakosningum í Kópavogi sem stóðu frá 25.janúar til 5. febrúar, eða 18% sem er mesta þátttaka sem hefur verið í sambærilegum kosningum á Íslandi. Hlutfallslega flestir kusu í Linda- og Salahverfi eða 24%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kópavogsbæ.
Okkar Kópavogur er samráðsverkefni íbúa og bæjarins um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda- og viðhaldsverkefna í bænum. Alls hlutu 37 hugmyndir brautargengi í verkefninu, en 200 milljónum verður varið í verkefnin. Framkvæmd þeirra hefjast í vor en lýkur á næsta ári.
Markmið verkefnisins er að hvetja íbúa til að taka þátt í málefnum sem varða nærumhverfi þeirra. Leggja fram hugmyndir og útdeila fjármagni í smærri framkvæmdir á vegum bæjarins með íbúakosningu. Verkefnið í heild sinni er í þremur liðum; hugmynd, kosning og framkvæmd.
Rúmlega 5.000 manns tóku þátt í kosningunni sem er 18% Kópavogsbúa 16 ára og eldri. Tæplega 60% þátttakenda voru konur, ríflega 40% karlar. Þátttakendur á aldrinum 31-40 voru fjölmennastir, 1.558 eða eða 31%, fast á hæla fylgdi aldurshópurinn 41-50 eða 1.531.
Sú tillaga sem flest atkvæði hlaut var að bæta göngu- og hjólreiðarleiðar frá Nýbýlavegi yfir Grænatún, en 710 manns kusu með tillögunni, sem er sögð kosta tvær milljónir.
Þar næst kom gangstéttargerð miður brekku á Digranesvegi, sem hlaut 702 atkvæði, en kostnaðurinn er sex milljónir.
Þá vildu 623 bæta aðkomu og öryggi við Sundlaug Kópavogs, sem kostar þrjár milljónir.
Síðast þegar kosið var í Okkar Kópavogi tóku 3.500 manns þátt eða 12,5% þeirra sem hafa kosningarétt. Kjósendum fjölgar þannig um ríflega 1.500 manns eða 43%.
Heildaryfirlit niðurstaðna má lesa hér í tenglinum: Niðurstöður kosninga 2018
Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á vefsíðu Kópavogsbæjar www.kopavogur.is