Launamunur kynja hjá Kópavogsbæ er enginn þegar bornir eru saman einstaklingar í sambærilegum störfum, á sama aldri, með sömu starfsreynslu og færni.
Þetta kemur fram í nýrri launarannsókn sem Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) vann fyrir Kópavogsbæ og kynnt var í morgun á fundi jafnréttis- og mannréttindaráðs.
Rannsóknin var unnin upp úr launabókhaldi Kópavogsbæjar á mánaðartímabili, unnið var með launagögn allra starfsmanna í yfir 40% starfshlutfalli, alls 1.891 starfsmanna sem eru 80% allra starfsmanna Kópavogsbæjar.
Niðurstaðan er sú að þegar leiðrétt hefur verið fyrir áhrifaþáttum á laun; aldri, starfsaldri, menntun, sviði og vinnutíma er ekki marktækur munur á launum kynja. Síðast þegar sambærileg rannsókn var gerð var kynbundinn launamunur 3,25% körlum í vil.
„Kópavogsbær hefur unnið markvisst að því að útrýma launamun milli karla og kvenna og er það skýr stefna að greiða konum og körlum sömu laun fyrir sambærileg störf, í ljósi þess er niðurstaðan mjög gleðileg fyrir sveitarfélagið,“
segir Ragnheiður Bóasdóttir formaður jafnréttis- og mannréttindaráðs.
Konur eru í miklum meirihluta starfsmanna Kópavogsbæjar, eða um 80%. Kynin dreifast ekki jafnt hvorki eftir sviðum né starfi. Hlutfallslega fleiri karlar hjá Kópavogsbæ vinna í tekjuhæstu starfsgreinunum og karlar vinna að meðaltali fleiri yfirvinnutíma en konur sem hefur áhrif á heildarlaun þeirra. Meðallaun karla eru 18% hærri en meðallaun kvenna, áður en tekið er tillit til áhrifaþátta sem áður hefur verið getið um.
Framkvæmd könnunar á launum starfsmanna er liður í framkvæmdaáætlun Kópavogsbæjar í jafnréttis- og mannréttindamálum. Sambærileg könnun var kynnt árið 2014 og þá var 3,25% launamunur milli kynja, eldri könnun er frá 2003 sem mældi 4,7% launamun milli kynja.
Í bókun jafnréttis- og mannréttindaráðs segir meðal annars: „Jafnréttis- og mannréttindaráð fagnar því að kynbundnum launamun meðal starfsfólks hafi verið eytt.“