Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir á Facebook síðu sinni, að ríkisstjórnin hafi enga heildarstefnu um þróun fjármálakerfisins og að hún veiti vogunarsjóðunum alla þá þjónustu sem þeir fara fram á. Gagnrýnir hann viðbrögð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, við fyrirspurn sinni um stefnu stjórnvalda varðandi þróun fjármálakerfisins og segir hana hafa komið sér á óvart.
Sigmundur spurði hvort gefa ætti eftir forkaupsrétt ríkisins að hlutabréfum Arion banka áður en þau yrðu skráð á markað líkt og vogunarsjóðirnir hafi farið fram á. Þá spurði hann einnig hvort ríkið ætlaði að selja hlut sinn í bankanum með beinum hætti, líkt og vogunarsjóðirnir vilja.
Sigmundur segir að með svörum sínum hafi forsætisráðherra staðfest að engin heildarstefna væri í þessum málum:
„Viðbrögðin komu mér verulega á óvart í ljósi þeirra miklu almannahagsmuna sem liggja í því að stjórnvöld klári það sem lagt var upp með við endurskipulagningu bankakerfisins auk þess sem fjárhagslegir hagsmunir eru gríðarlegir. Með svörunum var staðfest að ríkisstjórnin hefði enga heildarstefnu um þróun fjármálakerfisins. Engu að síður sagði formaður VG að ríkisstjórnin vildi selja banka, ekki eignast stærri hlut í þeim og fullyrti að ríkið ætti engan forkaupsrétt að hlutabréfum í Arion. Ef það er enginn forkaupsréttur hvers vegna hafa vogunarsjóðirnir þá verið að fara fram á að ríkið afsali sér forkaupsrétti eins og ítrekað hefur komið fram í fréttum? Þetta er ótrúleg yfirlýsing frá forsætisráðherra og til marks um að ríkisstjórnin hafi engin tök á atburðarásinni. Menn geta svo rétt ímyndað sér hvort vogunarsjóðirnir muni ekki taka svona yfirlýsingum fagnandi og telja þær lýsa stefnu stjórnvalda.“
Katrín sagðist í svari sínu ekki vera sammála forsendum spurningarinnar um stefnuleysi, sagði að stjórnin vildi skapa heilbrigða umræðu um þróun fjármálakerfisins, þar sem miklar breytingar hefðu verið gerðar þar undanfarin ár með nýju regluverki. Þá sagði Katrín að með gerð hvítbókar, líkt og kveðið væri á um í stjórnarsáttmálanum, yrði um leið skoðað hvort regluverkið væri fullnægjandi til framtíðar. Þá minntist hún einnig þess að staðan væri líkt og hún væri, að miklum hluta vegna aðgerða ríkisstjórnar Sigmundar á árunum 2013-16.